Home Fréttir Í fréttum Vesturverk fer fram á vegabætur norður í Árneshrepp

Vesturverk fer fram á vegabætur norður í Árneshrepp

6
0
Mynd: Vesturverk.

Birna Lárusdóttir, upplýsingafulltrúi Vesturverks ehf segir að dómur Hæstaréttar í nóvember síðastliðnum tryggi að Vesturverk geti haldið áfram vinnu við undirbúning Hvalárvirkjunar, þar sem virkjunin heldur þeim vatnasviðum sem gert var ráð fyrir. Jafnframt geti Landsnet haldið áfram að vinna að undirbúningi tengingar virkjunarinnar við meginflutningskerfið.

Nokkrir eigendur Drangavíkur kröfðust þess að þeim yrði dæmt land úr jörðunum Ófeigsfirði og Engjanesi ásamt vatnsréttindum við Eyvindarfjarðará en dómurinn féllst ekki á kröfur þeirra.

Framkvæmdaleyfi fyrir undirbúningsframkvæmdir

Snemma í haust veitti Hreppsnefnd Árneshrepps Vesturverki leyfi fyrir undirbúningsframkvæmdum virkjunarinnar. Framkvæmdaleyfið gerir Vesturverki kleift að ljúka jarðvegsrannsóknum uppi á Ófeigsfjarðarheiði, bæði á og við stíflustæði og á svæðum þar sem jarðgöng koma til með að liggja. Auk þess er ætlunin að brúa Hvalá, leggja vegslóða upp á heiði, laga veg frá Melum til Hvalárósa, leggja háspennustreng samhliða vegi og útbúa lóð fyrir litlar vinnubúðir.

Framkvæmdaleyfið var kært sem og leyfi Fiskistofu og verða bæði leyfin í kæruferli fram á næsta ár, sem mun að sögn Birnu hafa áhrif á tímasetningu fyrirhugaðra framkvæmda.

Nauðsynlegar vegaúrbætur

Í byrjun desember sendi Vesturverk erindi til innviðaráðuneytis með afriti til Vegagerðarinnar þar sem kynnt er frumhönnun vegaúrbóta í Árneshreppi sem Vesturverk telur nauðsynlegar. Samráð hefur verið haft við Vegagerðina um hönnun og útfærslur.

Um er að ræða lágmarksúrbætur á Strandavegi og Ófeigsfjarðarvegi til að auka burðargetu veganna, laga og/eða breyta veglínum og greiða fyrir almennri umferð og flutningum.

Úrbæturnar eru að mati fyrirtækisins brýnar þar sem ástand veganna er bágborið og vart bjóðandi fyrir almenna umferð eða þá umferð sem bætist við vegna framkvæmda, jafnt á vegum Vesturverks sem Landsnets. Ætla má að framkvæmdir standi yfir í þrjú til fjögur ár. Aðkoma Vegagerðarinnar er óhjákvæmileg þar sem hún er veghaldari á áðurnefndum tveimur vegum.

Vesturverk hefur lýst yfir vilja til að ræða aðkomu að vegaúrbótum sem snúa að Vegagerðinni en hluti framkvæmdanna er á samgönguáætlun.

Sem fyrr leggur Vesturverk áherslu á það í samskiptum sínum við ríkisvaldið að vegbætur í Árneshreppi eru mikilvæg forsenda framkvæmda. Koma þurfi starfsfólki ásamt aðföngum að og frá verkstað og brýnt að greiðfært sé allt árið um kring.

Heimild: BB.is