Nýr hringvegur var tekinn í notkun í dag við Keflavíkurflugvöll.
Nýr vegur var tekinn í notkun í dag, fimmtudaginn 27. nóvember, við Keflavíkurflugvöll og er þar með hægt að aka nýja leið frá flugvallarsvæðinu. Hingað til hefur vegurinn fyrir framan flugstöðvarbygginguna endað við komufarþegasvæði.
Í tilkynningu frá Isavia segir að með þessum nýja vegi eða vegbúti skapist hringtenging frá flugstöðvarbyggingunni sem auki bæði öryggi og flæði við flugstöðina til þess að mæta vaxandi umsvifum þar.
Nýi vegbúturinn liggur til norðausturs að Reykjanesbrautinni en með breytingunni má draga úr umferð næst flugstöðinni og koma í veg fyrir þveranir ökutækja yfir akreinar.
Með opnuninni lýkur fyrsta fasa framkvæmda við hringtenginguna en þær hafa staðið yfir frá vorinu 2025.
Heimild: Vb.is












