Home Í fréttum Undirskrift samninga utboda Samið við Garðabæ um þróun á Vífilsstaðareit

Samið við Garðabæ um þróun á Vífilsstaðareit

10
0
Daði Már Kristófersson og Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar, við undirritunina. Ljósmynd: Aðsend mynd

Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, undirritaði í gær fyrir hönd ríkisins samkomulag við Garðabæ um sameiginlega þróun Vífilsstaðareits.

Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, undirritaði í gær fyrir hönd ríkisins samkomulag við Garðabæ um sameiginlega þróun Vífilsstaðareits. Á vef Stjórnarráðs segir að unnið verði sameiginlega að heildarþróun svæðisins.

Gert er ráð fyrir að nýtt deiliskipulag fyrir svæðið allt verði tilbúið í lok árs 2027 eða byrjun árs 2028 og verður sérstök áhersla lögð á íbúðabyggð, heilbrigðistengda starfsemi og skólaþjónustu.

Byrjað verður á endurskipulagningu lóða við Spítalaveg 1–3 fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi. Deiliskipulag fyrir þennan hluta svæðisins verður unnið fyrir vorið 2026 og í kjölfarið hefur ríkið opið söluferli á fasteignum í samstarfi við Garðabæ.

Markmið með sölu eignanna er að koma þeim í not á ný fyrir þjónustutengda starfsemi sem er til þess fallin að auka aðdráttarafl svæðisins og stuðla að mannlífi og umsvifum.

„Með þessu samkomulagi er stigið mikilvægt skref í átt að heildstæðri uppbyggingu á Vífilsstöðum. Svæðið á sér langa sögu og þar eru miklir möguleikar á uppbyggingu og með þessu samkomulagi tryggjum við að samvinnu ríkisins og Garðabæjar með góða nýtingu landsins að leiðarljósi.“

Tryggt verður að óbreytt hjúkrunarstarfsemi verði rekin á staðnum að minnsta kosti til ársloka 2030, en framtíðarnýting hússins verður skoðuð í tengslum við heildarskipulag svæðisins.

Ráðuneytið mun þá fela Framkvæmdasýslunni – Ríkiseignum (FSRE) að hefja niðurrif ónýtra húsa á svæðinu í tengslum við nánari þróun svæðisins. Þá verða endurbætur á ytra byrði Yfirlæknisbústaðarins kláraðar og tryggt að húsið fái verðugan sess á svæðinu.

Aðilar voru einnig sammála um að hefja viðræður um möguleg kaup Garðabæjar á tveimur fasteignum á svæðinu að Spítalavegi 2 og 15 sem hýst hefur skólastarfsemi.

Heimild: Vb.is