Home Fréttir Í fréttum Óvíst hvenær pálmatréð kemur

Óvíst hvenær pálmatréð kemur

19
0
Nýbreytni Pálmatré í glerhólk mun prýða Vogabyggð í framtíðinni. Teikning/hönnun/Karin Sander

Ekkert bólar enn á því að umdeilt pálmatré rísi í hverfinu Vogabyggð í Reykjavík. Tæp sjö ár eru síðan kynnt var að tillaga þýska listamannsins Karin Sander hefði borið sigur úr býtum í samkeppni um útilistaverk í Vogabyggð. Samkvæmt svörum Reykjavíkurborgar við fyrirspurn Morgunblaðsins er ekki útlit fyrir að pálmatréð verði sett upp í bráð. Ekki er enn búið að taka ákvörðun um útfærslu þess.

Raunhæfismati er lokið

„Enn er unnið að hönnun á grunnskólanum í hverfinu sem verður sambyggður brú sem tengist Vörputorgi þar sem listaverkinu er ætlaður staður. Það sem er vitað á þessu stigi er að þótt torgið sé tilbúið og raunhæfismat um framkvæmd listaverksins liggi fyrir, þá er enn verið að vinna í útfærslu á fyrirhugaðri brú sem þarna mun rísa og tengist beint inn á torgið,“ sagði í svörum borgarinnar. Þar sagði enn fremur að meðan ekki væri vitað hvar og hvernig sú tenging útfærist yrði bið á því að verkið yrði reist.

Þegar Morgunblaðið kannaði síðast hvar verkefnið væri á vegi statt, í mars 2024, kom fram að búast mætti við að fyrsti áfangi þessa svæðis – það er leikskóli og yngsta stig grunnskóla ásamt brú – yrði tilbúinn í lok árs 2028.

Pálmatré var tillaga þýska listamannsins Karin Sander sem bar sigur úr býtum í samkeppni um útilistaverk í Vogabyggð. Niðurstaða dómnefndar var kynnt í janúar 2019.

Tvö pálmatré urðu að einu

Upphaflega var í verkinu gert ráð fyrir að tveimur pálmatrjám yrði komið fyrir í stórum turnlaga gróðurhúsum og að frá þeim stafaði ljós og hlýja. Kostnaður við verkefnið var áætlaður 140 milljónir króna.

Í október árið 2021 var upplýst að verkið hefði staðist raunhæfismat sem framkvæmt var. Hins vegar var ákveðið, í samráði við listamanninn, að fækka fyrirhuguðum pálmatrjám í Vogabyggð úr tveimur í eitt.

Heimild: Mbl.is