Eik og Hamravellir hafa undirritað samkomulag um uppbyggingu á iðnaðar- og lagerhúsnæði á Völlunum í Hafnarfirði.
Eik fasteignafélag hf. og Hamravellir atvinnuhús ehf. hafa undirritað samkomulag um uppbyggingu á iðnaðar- og lagerhúsnæði við Jötnahellu í Hafnarfirði. Í tilkynningu segir að áætlaður framkvæmdatími sé um 12 mánuðir.
Verkland ehf. mun sjá um framkvæmd verkefnisins fyrir Eik þar sem lögð verður áhersla á vandaða hönnun, greiða aðkomu og gott skipulag.
„Þetta samstarfsverkefni gerir Eik fasteignafélagi kleift að sækja fram á einu öflugasta atvinnu- og athafnasvæði landsins með öflugum og reynslumiklum aðilum. Verkefnið er liður í því að auka fjölbreytni eignasafns félagsins og taka virkan þátt í vexti íslensks atvinnulífs,“ segir Hreiðar Már Hermannsson, forstjóri Eikar.
Í tilkynningu segir jafnframt að uppbyggingin muni styrkja atvinnulíf í Hafnarfirði enn frekar og stuðla að fjölgun starfa á svæðinu.
„Við erum stolt af því að leggja okkar af mörkum til að efla atvinnuuppbyggingu í Hafnarfirði, sem er orðið eitt mikilvægasta iðnaðar- og þjónustusvæði höfuðborgarsvæðisins,“ segir Óskar Hafnfjörð Auðunsson, frá Hamravöllum atvinnuhúsum.
Valdimar Víðisson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, fagnar samstarfinu og framgangi verkefnisins og segir það ánægjulegt að sjá áframhaldandi vöxt og fjárfestingu á Völlunum.
„Uppbygging sem þessi skapar ný tækifæri fyrir fyrirtæki og stuðlar að fjölgun starfa í Hafnarfirði. Þetta verkefni endurspeglar þá miklu eftirspurn sem er eftir vönduðu atvinnuhúsnæði og öflugum rekstri á svæðinu,“ segir Valdimar.
ARMA Advisory, LOGOS og Venture Legal veittu aðilum ráðgjöf í viðskiptunum.
Heimild: Vb.is












