Home Fréttir Í fréttum Tíminn leiðir í ljós tjónið eftir brunann hjá Primex

Tíminn leiðir í ljós tjónið eftir brunann hjá Primex

31
0
Eftir er að komast að upptökum eldsvoðans hjá Primex á Siglufirði. Mynd/Aðsend

„Það eina sem við getum gert á þessari stundu er að vera bjartsýn og vona hið besta,“ segir forstjóri Ísfélagsins, eiganda Primex á Siglufirði þar sem mikið tjón varð í eldsvoða í fyrrakvöld. Um 25 manns starfa hjá fyrirtækinu og eru þeir slegnir.

Stórbruni varð á Siglufirði í vikunni er eldur kom upp í byggingu Primex. Er Fiskifréttir fóru í prent í fyrradag var enn ekki ljóst nákvæmlega hversu mikið tjónið er.

Mynd/Aðsend

Ekki náðist í Vigfús Rúnarsson, framkvæmdastjóra Primex, en starfsmaður fyrirtækisins sem varð fyrir svörum sagði alla mjög slegna og dapra yfir stöðunni.

Stefán Friðriksson, forstjóri Ísfélagsins í Vestmannaeyjum sem er eigandi Primex, sagði of snemmt að segja til um afleiðingar brunans.

„Þetta er stórbruni og náttúrlega stórtjón,“ sagði Stefán. Sagði hann vettvanginn nú í höndum slökkviliðsins og síðan lögreglunnar og loks tryggingafélagsins.

Enginn ástæða til að mála skrattann á vegginn

Primex framleiðir kítinafurðir úr rækjuskel og eru þær nýttar í húðvörur og til lækninga. Um 25 manns starfa að sögn Stefáns fyrir fyrirtækið á Siglufirði og í Reykjavík.

„Það eina sem við getum gert á þessari stundu er að vera bjartsýn og vona hið besta. Svo verður tíminn að leiða í ljós hversu mikið tjón hefur orðið. Það er enginn ástæða til að mála skrattann á vegginn eins og staðan er,“ svaraði hann spurður hvort starfsemin muni ekki fara í gang að nýju.

Mynd/Aðsend

Mikil veltuaukning og hagnaður í fyrra

Sjá má af ársreikningi Primex fyrir árið 2024 að reksturinn gekk vel. Veltan hafði aukist um 48,6 prósent frá árinu á undan, úr 863 milljónum króna í 1.282 milljónir. Þá hafði tapi upp á 72 milljónir króna verið snúið í ríflega 151 milljónar hagnað. Þá stendur Primex sterkt fjárhagslega með eigið fé upp á 800 milljónir króna.

„Félagið hefur á árinu 2024 aukið áherslu sína á sókn inn á Bandaríkjamarkað og hyggur á frekari vöruþróun fyrir þann markað,“ segir í ársreikningnum.

Stefán sagði Primex vera gott fyrirtæki. „Þetta er nýsköpunarfyrirtæki og er að byggja upp þekkingu og markaði,“ sagði hann.

Slökkviliðsmenn börðust við eldinn fram á nótt og voru enn að störfum fram á næsta dag.

Heimild: Vb.is