Home Fréttir Í fréttum 2,5 milljarða viðgerðum á Turninum að ljúka

2,5 milljarða viðgerðum á Turninum að ljúka

25
0
Vinnulyfta utan á Turninum í Kópavogi. mbl.is/Árni Sæberg

Kostnaður vegna viðgerða á Turninum í Kópavogi sem hafa staðið yfir síðustu árin nemur um 2,5 milljörðum króna. Viðgerðunum er í þann mund að ljúka.

Færustu ráðgjafar vegna þráláts leka

Um er að ræða kostnað við endurbætur síðustu þrjú til fjögur árin vegna endurnýjunar á gleri og fögum, lagfæringar vegna rakaskemmda, endurnýjun á lyftum, skrautlýsingar, endurnýjun þaks, vindföng og fleira.

Að því er kemur fram í upplýsingum frá Eik fasteignafélagi, sem á húsið, nam kostnaðaráætlun vegna framkvæmdanna um 2,5 milljörðum og er útlit fyrir að hún standist. Turninn er ein hæsta bygging landsins og full starfsemi hefur verið í húsinu allan framkvæmdatímann. Umfang verksins er því umtalsvert.

mbl.is/Árni Sæberg

Þrálátur leki hafði hrjáð ákveðin svæði í veðurhjúp hússins. Áður en verkið hófst fór mikill undirbúningur fram og voru færustu ráðgjafar sem völ var á, bæði innlendir sem erlendir, fengnir til starfa.

Endurbætur á öllum 18 skrifstofuhæðunum

Við glerskipti í ágúst 2023 komu í ljós minniháttar rakaskemmdir í gifsplötum á mjög afmörkuðu svæði við útvegg hússins. Ákveðið var að gera ítarlegri skoðun og kanna hvort sambærilegar skemmdir leyndust annars staðar. Niðurstöðurnar leiddu í ljós galla í uppbyggingu útveggja hússins og rakaskemmdir í ysta lagi við hæðarskil sem þurfti að lagfæra. Endurbætur höfðu í för með sér endurbætur innanhúss á öllum skrifstofuhæðum hússins, sem eru samtals 18 hæðir.

Miklar framkvæmdir hafa verið í gangi í Turninum. mbl.is/Árni Sæberg

Í stórum dráttum fólst verkefnið í því að fjarlægja allt byggingarefni sem hafði komist í snertingu við raka eða bleytu og endurnýja það með öðrum efnum, ásamt því að endurhanna allt þéttingakerfi hússins.

Byggingarefni á öllum fjórum hliðum hússins var á endanum fjarlægt, auk þess sem skipt var um gler og fög á austur- og suðurhlið hússins.

Turninn í Kópavogi. Ljósmynd/Aðsend

Stærsta viðhaldsframkvæmd Eikar frá upphafi

Til að skilja hvergi eftir óvissu í lagfæringum var ákveðið að ráðast í markvissar endurbætur innanhúss á þeim svæðum sem minnsti möguleiki var á að höfðu orðið fyrir rakaskemmdum. Gólfefni voru annað hvort endurnýjuð eða slípuð, loftefni voru endurnýjuð eða hreinsuð, öll ljós voru endurnýjuð og allar hæðir málaðar, ásamt því sem hreinsaðar voru hátt og lágt, samkvæmt verkferlum ráðgjafa Eikar, allar hæðir hússins, sameiginleg svæði, baksvæði, tæknirými og lyftustokkar.

Húsið var nánast gert fokhelt. mbl.is/Árni Sæberg

Segja má að húsið hafi nánast verið gert fokhelt og er verkefnið vegna endurbótanna stærsta viðhaldsframkvæmd sem Eik hefur ráðist í frá upphafi.

Vinnulyftur loksins að hverfa

Þrýstiprófanir og gæðaúttektir hafa farið fram í Turninum undanfarna mánuði. Vinnulyfturnar sem hafa staðið utan á húsinu undanfarin ár eru að hverfa hver af annarri og einnig er verið að ljúka við uppsetningu nýrrar skrautlýsingar utan á húsinu. Gangi allt að óskum fer hún í gagnið á næstu þremur til fjórum vikum.

mbl.is/Árni Sæberg

Dæmi um umfang endurbóta innanhúss og frágangs:

  • Vinnusvæði (heildarverkhluti): ca. 14.000 m²
  • 30+ leigutakar í húsinu á meðan framkvæmdum stóð
  • Ný gólfefni: ca. 9.500 m²
  • Ný loftefni: ca. 9.500 m²
  • Ný ljós: ca. 10.300 stk.
  • Þrif og lokafrágangur (allir fletir): ca. 14.000 m² gólfflötur
  • Endurnýjað gler – 2.500 m²
  • Opnanleg fög 380 stk.
  • Þéttiborðar 7,3 km

Heimild: Mbl.is