Home Fréttir Í fréttum Útboð farið af stað fyrir nýtt hjúkrunarheimili á Húsavík

Útboð farið af stað fyrir nýtt hjúkrunarheimili á Húsavík

19
0
Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, og Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri í Norðurþingi, við undirritun samningsins á Húsavík í vor. Mynd: Gaukur Hjartarson

Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir hefur fyrir hönd félags- og húsnæðismálaráðuneytisins óskað eftir leigutilboðum fyrir húsnæði undir hjúkrunarheimili á Húsavík.

Verkefnið snýr að því byggja og fullgera hjúkrunarheimili við Auðbrekku 2 sem ríkið mun síðan leigja með langtímaleigusamningi. Sem kunnugt er skrifuðu félags- og húsnæðismálaráðherra og sveitarstjóri Norðurþings undir samkomulag síðastliðið vor um uppbyggingu 60 rýma hjúkrunarheimilis á Húsavík sem koma á í stað núverandi heimilis.

Nýja hjúkrunarheimilið mun standa aftan við hjúkrunarheimilið Hvamm og munu allir 54 íbúar Hvamms flytja yfir þegar heimilið verður opnað. Nýja húsið leysir þannig það eldra af hólmi, auk þess sem hjúkrunarrýmum í sveitarfélaginu fjölgar um sex.

Árið 2021 var skóflustunga tekin að nýju hjúkrunarheimili við Auðbrekku og í kjölfarið grafið fyrir grunni hússins. Ekkert varð hins vegar af sjálfri byggingu hjúkrunarheimilisins. Með útboði Framkvæmdasýslunnar hyllir undir að framkvæmdir verði loks að veruleika.

„Það er táknrænt að við rjúfum kyrrstöðuna með því að undirrita samninginn ofan í holunni sem safnað hefur vatni síðustu ár,“ sagði ráðherra við undirritunina í vor.

Stefnt er að sambærilegu útboði vegna hjúkrunarheimilis í Þursaholti á Akureyri á næstu misserum.

Heimild: Stjornarradid.is