Home Fréttir Í fréttum Vegagerðin má semja við norskan verktaka um brúarsmíði á sunnanverðum Vestfjörðum

Vegagerðin má semja við norskan verktaka um brúarsmíði á sunnanverðum Vestfjörðum

62
0
Þegar framkvæmdum Vegagerðarinnar í Gufudalssveit lýkur þarf ekki lengur að keyra yfir Ódrjúgsháls til að komast til og frá Vestfjörðum suðurleiðina. Fyrst þarf þó að ljúka samningum við verktaka. Ríkisútvarpið ohf – Jóhannes Jónsson

Vegagerðin getur nú samið við verktaka um brúargerð á sunnanverðum Vestfjörðum. Það hefur tafist vegna þess að niðurstaða útboðsins var kærð.

Kærunefnd útboðsmála hefur aflétt banni á samningagerð Vegagerðarinnar við norska fyrirtækið Leonhard Nilsen og Sønner um brúarsmíði í Gufudalssveit. Enn á eftir að birta úrskurð nefndarinnar.

Leonhard Nilsen gerði þriðja lægsta tilboðið í verkið. Tilboð voru opnuð í lok apríl og þegar farið hafði verið yfir fjárhagslegar forsendur ákvað Vegagerðin að semja við norska fyrirtækið frekar en þá tvo sem buðu lægst. Tilboðið var 14% hærra en áætlaður verktakakostnaður. Það hljóðar upp á einn milljarð og 852 milljónir króna.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem verkið í Gufudalssveit tefst eins og sjá má á fyrirsögninni hér fyrir ofan.

Smíða á 58 metra langa brú yfir Djúpafjörð við Grónes og 130 metra brú yfir Gufufjörð. Þetta er liður í vegabótum Vegagerðarinnar á Vestfjarðavegi nr. 60 á sunnanverðum Vestfjörðum. Verklok voru áætluð í september 2026 en tafir á samningi við verktakann gætu orðið til þess að þau frestist.

Lokaáfangi verksins verður boðinn út í lok þessa árs, 250 metra löng brú yfir Djúpafjörð ásamt lokafrágangi. Eftir það verður leiðin vestur um 22 kílómetrum og hálftíma styttri, klædd bundnu slitlagi og á láglendi.

Heimild: Ruv.is