Home Fréttir Í fréttum Gatan sem gerði fólk að milljóna­mæringum

Gatan sem gerði fólk að milljóna­mæringum

48
0
Frederik VI’s Allé í Frederiks­berg

Ein íbúð í götunni hækkaði um 57 milljónir í verði á þremur árum.

Frederik VI’s Allé í Frederiks­berg í Dan­mörku er orðin tákn­mynd íbúða­markaðarins í Kaup­manna­höfn, að því er fram kemur í um­fjöllun Børsen.

Gatan liggur við Frederiks­berg Have, í tíu mínútna göngufæri frá neðanjarðar­lest og stuttri hjóla­ferð frá Ráðhú­s­torginu en stað­setningin veldur því að kaup­endur eru reiðu­búnir að greiða háar fjár­hæðir fyrir fast­eignir á svæðinu.

Nú er 98 fer­metra íbúð á fjórðu hæð á götunni aug­lýst á 8.995.000 dönskum krónum, sem jafn­gildir nær 92 þúsund krónum á fer­metra. Sam­varar það um 170 milljónum ís­lenskra króna á gengi dagsins.

Seljandi gæti þannig grætt um 3 milljónir danskra króna á þremur árum, en íbúðin var síðast seld í október 2022 á 6 milljónir króna. Sam­svarar það um 57 milljóna króna hagnaði á þremur árum.

Þegar Børsen beindi sjónum að götunni árið 2016 var hún kölluð „öf­ga­dæmi“ um verðþróun, eftir að íbúð seldist á meira en 50 þúsund krónum á fer­metra.

Þá urðu margir eig­endur í raun milljóna­mæringar á pappír. Níu árum síðar hefur verðþróunin haldið áfram upp á við og aukist til muna síðustu ár.

Seðla­banka­stjóri Dan­merkur, Ul­rik Nødga­ard, hefur varað við þessum hraða vexti íbúða­verðs og segir að jafn­vel þótt tekjur vaxi hraðar í höfuð­borginni „geti þetta ekki haldið áfram á sama hraða“ en bankinn fylgist grannt með þróuninni, að sögn Børsen.

Fast­eigna­salinn Gitte Grønlund, sem hefur starfað á Frederiks­berg frá árinu 2000, segir spurninguna sem hún heyri hvað oftast vera óbreytta:

„Nú hljóta verðin að vera komin upp í topp,“ segir Gitte en hún bætir við að staðan sé þannig að fólki finnist verð á íbúðum á svæðinu hafa verið of hátt í langan tíma.

Tölurnar undir­strika muninn milli svæða
Sam­kvæmt húsnæðis­markaðstölum Finans Dan­mark hefur meðal­fer­metra­verð íbúða í Kaup­manna­höfn hækkað úr 22.735 krónum á fyrsta árs­fjórðungi 2010 í 61.354 krónur á öðrum árs­fjórðungi 2025, sem er 170% hækkun á 15 árum.

Hús í nágrenni höfuð­borgarinnar fóru á sama tíma úr 20.934 í 40.645 krónur á fer­metra, tæp­lega 100% hækkun, en hækkunin í Norður-Jót­landi nam einungis 23,5%.

Sagan birtist líka í einstökum eignum á götunni:

Íbúð við Frederik VI’s Allé 10 (138 m²) seldist árið 2012 á 5.250.000 danskar krónur en síðan á 10.000.000 krónur árið 2024 og síðan á 12.075.000 krónur í ár. Sam­svarar það um 6.825.000 danskra króna hækkun á 13 árum, eða um 130 milljóna króna aukningu í ís­lenskum krónum á gengi dagsins.

Frederik VI’s Allé gerði því marga eig­endur að milljóna­mæringum þegar fer­metra­verð fór yfir 50 þúsund krónur árið 2016. Sam­kvæmt Børsen virðist þessi litla gata enn setja tóninn á markaði þar sem ný met eru slegin reglu­lega.

Heimild: Vb.is