
Raki eða mygla hafa greinst í nærri helmingi þess húsnæðis íslenska ríkisins sem stendur auður. Alls á eða leigir ríkið 60 þúsund fermetra af húsnæði þar sem engin starfsemi fer fram.
Íslenska ríkið á eða leigir 60 þúsund fermetra húsnæði sem stendur autt. Rúmlega tvo þriðju þess húsnæðis er að finna á höfuðborgarsvæðinu og raki eða mygla hefur fundist í hátt í helmingi þess húsnæðis sem stendur autt.
Þetta kemur fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Dags. B. Eggertssonar, þingmanns Samfylkingarinnar.
Af 60 þúsund fermetrum húsnæðis sem stendur autt er 44 þúsund þeirra að finna á höfuðborgarsvæðinu. Minnst er um autt húsnæði á vegum ríkisins á Norðurlandi vestra, þar standa tæplega 800 fermetrar auðir.

RÚV – Arnór Fannar Rúnarsson
Til stendur að selja hluta húsnæðisins á almennum markaði eða þróa það nánar, samkvæmt svari fjármálaráðherra. Þar eru tiltekin Tollahúsið við Tryggvagötu, Borgartún 5-7 og Grensásvegur 9.
Í svari ráðherra kemur fram að rúmlega fjórðungur húsnæðisins stendur auður vegna raka eða myglu. Það er að stærstum hluta á höfuðborgarsvæðinu en einnig húsnæði á Vesturlandi.
Húsnæðið sem stendur autt er verðmetið á tæpa ellefu milljarða króna.
Heimild: Ruv.is