Stórlega sér á klæðningu á húsnæði gosminjasafnsins Eldheima í Vestmannaeyjum. Raunar svo mikið að klæðningin virðist vera að detta af húsinu á norðurhlið þess.
Húsið var tekið í notkun í maí árið 2014 og þykir mikið mannvirki sem kostaði tæpan milljarð í byggingu á þáverandi verðlagi. Bærinn veltir nú upp möguleika á bótum vegna málsins. Það gæti þó reynst snúið þar sem verktakinn sem útvegaði efnið sem er að gefa sig er ekki lengur til.
Langt undir eðlilegum endingartíma
„Þessar skemmdir á klæðningunni komu okkur á óvart og málið er bara í því ferli sem það þarf að fara í. En það er ljóst að þetta er langt undir eðlilegum endingartíma á klæðningu sem þessari,“ segir Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.

Tæring undir klæðningunni
Brynjar Ólafsson, framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs Vestmannaeyjabæjar, segir að eftir skoðun virðist sem tæring hafi orðið í stálefni sem er undir klæðningunni sem gerir það að verkum að hún hefur losnað af.
„Leiðarar undir klæðningunni sem nefnast korten-stál eru ekki að standast veðrið í Vestmannaeyjum og eru að tærast,“ segir Brynjar.
Að sögn hans þarf að taka alla klæðninguna af húsinu og setja nýja leiðara sem klæðningin er svo skrúfuð á.

Að sögn hans liggur kostnaður við áætlaðar viðgerðir ekki fyrir á þessari stundu. Spurður segir Brynjar að engin niðurstaða liggi fyrir varðandi bótakröfu bæjarins.
„Við höfum verið í samræðum við framleiðanda efnisins en verktakinn sem skaffaði efnið á sínum tíma er ekki lengur til. Við þurfum því að skoða málin aðeins betur varðandi það,“ segir Brynjar.

Leiðinlegt og ömurlegt
Kristín Jóhannsdóttir forstöðumaður Eldheima telur málið afar leitt. „Manni finnst þetta afar leiðinlegt og ömurlegt. Þetta átti að vera algjörlega viðhaldsfrítt. Það er ekki langt síðan við fórum að taka eftir því að klæðningin væri að fara í sundur,“ segir Kristín.



Heimild: Mbl.is