
Þrír karlmenn og tvær konur sæta nú ákæru í Svíþjóð og er gefið að sök að hafa haft samverknað um stórfelldan peningaþvott þar sem 386,5 milljónir sænskra króna voru hvítþvegnar – það er látnar líta út sem lögleg velta – gegnum fjölda fyrirtækja í byggingarverktakageiranum, en nefnd upphæð samsvarar tæpum fimm milljörðum íslenskra króna.
„Ég lýsi þessu nánast sem peningaþvottaverksmiðju,“ segir Sanna Nesser, yfirsaksóknari Efnahagsbrotarannsóknarstofnunar Svíþjóðar, Ekobrottsmyndigheten, EBM, í umfjöllun stofnunarinnar um málið sem lesa má á heimasíðu hennar.
Samkvæmt ákæru tóku mennirnir þrír og önnur kvennanna á móti greiðslum inn á bankareikninga samtals 22 byggingarverktakafyrirtækja, en að baki greiðslunum lágu falsaðir reikningar sem tilgreindu tilhæfulausar kröfur og var féð nýtt meðal annars til þess að greiða starfskröftum sem ekki greiddu af launum sínum skatta eða önnur gjöld.
Bílakaup fyrir hátt í 800 milljónir
Hin konan er ákærð fyrir að hafa tekið við greiðslum og miðlað þeim áfram á reikninga fyrirtækja sem ákærðu nýttu við brot sín. Er hún enn fremur grunuð um að hafa annast kaup bifreiða fyrir rúmlega 60 milljónir sænskra króna, jafnvirði tæpra 770 milljóna íslenskra króna, en hinar keyptu bifreiðar voru í framhaldinu sendar úr landi og seldar erlendis án þess að nokkurs staðar væri gerð grein fyrir sölunni.
Segir Nesser saksóknari á heimasíðu EBM að stofnuninni hafi tekist að sýna fram á hvernig ákærðu byggðu svikamyllu sína og hvernig þau nýttu milliliði til að dylja slóð sína. Þá hafi saksóknarar í fórum sínum mörg þúsund síður af netsamtölum milli ákærðu þar sem þau leggi á ráðin um efnahagsbrot sín og kallar Nesser háttsemi þeirra „kerfisfjandsamlega og samfélagsskaðlega“.
Brot ákærðu áttu sér samkvæmt ákæru stað tímabilið janúar 2023 til september 2024 og náði rannsókn EBM hvort tveggja til sænskra og lettneskra fyrirtækja. Málið verður þingfest fyrir héraðsdómi 25. ágúst og er reiknað með að aðalmeðferð þess standi fram í október.
Heimild: Mbl.is