
Miklar framkvæmdir standa yfir á Laugarvatni um þessar mundir við stækkun baðstaðarins Fontana.
Reist verður 1.139 fermetra hús þar sem meðal annars verða nýir búningsklefar og eimbað. Einnig er útbúið 600 fermetra baðlón með bar. Mannvirki þessi eru að hluta til á fyllingu út í Laugarvatnið og eru rétt austan við núverandi aðstöðu.
„Segja má að þetta verkefni sé viðbragð við vinsældum Fontana. Hér stoppa margir sem eru á Gullna hringnum, leiðinni Þingvellir, Geysir og Gullfoss. Á góðum degi koma hingað 400-500 manns og því þarf að bæta núverandi aðstöðu sem er löngu sprungin,“ segir Sigurður Rafn Hilmarsson framkvæmdastjóri Fontana í samtali við Morgunblaðið.
Heimild: Mbl.is