
Lengri tíma tekur að selja nýjar íbúðir á fasteignamarkaði en þær sem eru eldri. Hagfræðingur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun telur mögulegt að skortur á bílastæðum, birtuskilyrði og áhættufælni geti skýrt þróunina.
Illa gengur að selja nýjar íbúðir á fasteignamarkaði þrátt fyrir aukið framboð. Skortur á bílastæðum, lítil birta og ótti við galla er talið geta fælt fólk frá kaupum. Meira máli skiptir hvort íbúðir eru nýjar eða notaðar en stærð þeirra eða verð.
Þetta kemur fram í nýútkominni mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
Notaðar íbúðir eftirsóttari
Samkvæmt skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar eru 61% líkur á að lítil og ódýr íbúð sem er notuð seljist innan 60 daga á höfuðborgarsvæðinu. Til samanburðar eru aðeins 26% líkur á að lítil og ódýr íbúð sem er ný seljist á jafn löngum tíma.
Í skýrslunni eru nefndar nokkrar mögulegar ástæður fyrir þessu.
„Sem dæmi má nefna að á undanförnum árum hafa ný fjölbýlishús gjarnan risið þétt sem gerir það að verkum að birtuskilyrði geta verið óákjósanleg auk þess sem bílastæðafjöldi hefur víða verið af skornum skammti. Þá hefur jafnframt borið nokkuð á göllum í nýbyggingum undanfarið sem getur verið fráhrindandi fyrir áhættufælna kaupendur.“
Jónas Atli Gunnarsson, hagfræðingur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, segir í samtali við fréttastofu að stofnunin búi ekki yfir gögnum um hvort íbúðir með færri bílastæði seljist síður en aðrar.
„Það skýrist af því að bílastæði eru illa skilgreind í okkar gögnum. Þau fylgja stundum með íbúðum en stundum eru bílastæði fyrir utan. En þetta er bara ein af mögulegum skýringum,“ segir Jónas.
Hann segir kaupendur löngum hafa verið trega til að kaupa nýjar íbúðir en nú halli enn frekar á sölu þeirra en áður.
„Það hefur verið að aukast þetta bil á milli söluhraða nýrra og eldri íbúða. Það er sérstaklega sláandi núna þar sem það eru mjög margar óseldar nýjar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu. Þær hafa komið á skömmum tíma inn en ekki farið fljótt út af markaðinum eins og eldri íbúðir.“
Mikill meirihluti einstaklinga stenst ekki greiðslumat
Allt að 80% einstaklinga stæðust ekki greiðslumat fyrir nýrri íbúð á höfuðborgarsvæðinu með lágmarks eigið fé. Jónas segir að hlutfallið fari hækkandi eftir því sem greiðslubyrði lána hækkar.
„Við sjáum samt að mörg pör geta ráðið við greiðslur af lánum ef þau taka verðtryggð lán. Það eru því kannski helst óverðtryggðu lánin sem fólk hefur ekki efni á miðað við núverandi reglur um háa greiðslubyrði,“ segir Jónas.
Í mánaðarskýrslunni segir að samanlagðar tekjur 80% tekjuhæstu paranna dugi til að standa straum af afborgunum af verðtryggðum lánum fyrir íbúðum sem kosta allt að 80 milljónir króna.
Staðan væri verri ef verðtryggð lán væru ekki í boði en þá stæðust einungis 20-40% tekjuhæstu paranna greiðslumat fyrir 70-90 milljóna króna eignum.
„Ljóst er að flestir einstaklingar og pör þurfa að reiða sig á verðtryggingu íbúðalána sinna til að eiga möguleika á að kaupa þær nýju íbúðir sem til sölu eru á höfuðborgarsvæðinu um þessar mundir sökum hárra vaxta og þröngra lánþegaskilyrða. Án verðtryggingar eru möguleikar til kaupa á nýjum íbúðum verulega takmarkaðir,“ segir í skýrslunni.
Heimild: Ruv.is