Home Fréttir Í fréttum Áform um tvö hótel, 100 lítil gistihús og baðlón mæta andstöðu í...

Áform um tvö hótel, 100 lítil gistihús og baðlón mæta andstöðu í sveitinni

64
0
Mikil uppbygging undir Eyjafjöllum er á teikniborðinu, samkvæmt auglýsingu sveitarstjórnar Rangárþings eystra á breytingu á aðalskipulagi. Skipulagssvæðið liggur við Suðurlandsveg austan við Holtsós undir Eyjafjöllum. RÚV – Víðir Hólm Ólafsson

Á sjöunda hundrað manns hafa mótmælt áformum um verslunar og þjónustusvæði við Holtsós undir Eyjafjöllum, þar sem tvö hótel, baðlón og hundrað gistiskálar eiga að rísa.

Áform um verslunar og þjónustusvæði við Holtsós undir Eyjafjöllum mæta víðtækri andstöðu, meðal annars frá Vegagerðinni. Meðal annars er gert ráð fyrir tveimur hótelum, baðlóni og hundrað gistiskálum til útleigu fyrir ferðamenn.

Sveitarstjórn Rangárþings eystra hefur auglýst breytingu á aðalskipulagi þannig að gert verði ráð fyrir uppbyggingu verslunar- og þjónustusvæðis sunnan við þjóðveginn austan Holtsóss undir Eyjafjöllum, að Steinum og Hvassafelli. Svæðið er í núverandi aðalskipulagi skilgreint sem landbúnaðarland.

Gert er ráð fyrir að það verði 200 manna hótel við þjóðveginn, 100 gistiskálar meðfram Holstósi og loks annað 120 manna hótel ásamt baðlóni. Vatnið í baðlóninu verður upphitað og ekki með klór eða sótthreinsiefnum. Þá stendur til að reisa fjölorkustöð og gistiskála fyrir starfsfólk.

Norðan við þjóðveginn er ekki fyrirhuguð uppbygging fyrir utan borholu fyrir vatn.

Vestan við veginn verða byggðar starfsmannaíbúðir. Þar verða svo 100 gistiskálar til útleigu til ferðamanna. Syðst á svæðinu næst Holtsósi verður byggt baðlón og gufuböð ásamt þjónustubyggingu. Síðar verður byggt hótel við baðlónið og loks er stefnt að uppbyggingu á hóteli og fjölorkustöð við þjóðveginn.
RÚV / ©Nordic office of architecture

Framkvæmdirnar eru á vegum fyrirtækisins Steinar Resort ehf. Áætlað er að þær hefjist á næsta ári.

Á sjöunda hundrað manns hafa skrifað undir undirskriftarlista gegn þessum framkvæmdum. Þar segir að lítið hafi verið hlustað á ítrekuð mótmæli meirihuta íbúa.

„Mér líst hræðilega á þær,“ segir Vigfús Andrésson, bóndi í Berjanesi, en bærinn hans stendur á næstu lóð. „Ég er nágranni þessarar jarðar og ég ásamt öllum Eyfellingum sem ég hef talað við – og þeir eru flestir – erum á einu máli um það að þetta er eyðilegging á Eyjafjöllum, þessi fyrirætlun,“ segir Vigfús. „Þetta má ekki gerast.“

Vegagerðin andvíg skipulaginu

Fjölmargar athugasemdir hafa borist vegna auglýsingarinnar, meðal annars frá ýmsum stofnunum.

Vegagerðin hefur synjað deiliskipulaginu. Þá mótmælir Fuglaverndaverndarfélag Íslands harðlega, þar sem starfsemi og framkvæmdir muni hafa í för með sér verulega neikvæð áhrif á fuglalíf. Á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði eru votlendisblettir sem flokkaðir eru sem starungsmýravist og starungsflóavist, og hafa mjög hátt verndargildi. Þar finnast einnig grasmóavist, língresis- og vingulsvist sem allar hafa hátt verndargildi.

Veðurstofa Íslands bendir á að þörf sé á hættumati vegna sjávarflóða og vegna skriðuhættu.

Steinar var áður stórt byggðarhverfi, almennt kallað Steinabæirnir, en vegna skriðuhættu og hruns minnkaði byggð upp úr aldamótum 1900. Í vor varð banaslys þegar grjót féll á bíl á þjóðveginum vestan við Holtsós.

Heimild: Ruv.is