Áform eru um að reisa vindorkuver á landi Hróðnýjarstaða í Dalasýslu. Fyrirtækið Stormorka ehf. stendur á bak við verkefnið sem hefur fengið nafnið Storm I og er nú í mats- og skipulagsferli.
Það samanstendur af 18 vindmyllum sem allar eru 167,5 metrar að hæð. Magnús E. Jóhannsson framkvæmdastjóri Stormorku er vongóður um að leyfi fáist, fyrirtækið hafi unnið að verkefninu í hartnær níu ár.
Björn Bjarki Þorsteinsson sveitarstjóri Dalabyggðar segir að enn eigi mikið vatn eftir að renna til sjávar í þessum málum og formleg afstaða sveitarstjórnar liggi ekki fyrir.
Nýverið gaf Stormorka út umhverfismatsskýrslu fyrir framkvæmdirnar. Þar kemur meðal annars fram að allur búnaður sem þörf er á fyrir verkefnið verði fluttur frá Grundartanga, áætlað er að flutningar taki um níu vikur.
Magnús segir að eftir sex ár af rannsóknum hafi það komið í ljós að umhverfisáhrif við byggingu vindmyllnanna séu minni háttar.
Áætlað er að framkvæmdir taki tvö ár, hvort ár má búast við að um þrjú hundruð starfsmenn komi að verkefninu.
Heimild: Mbl.is