Árni Stefánsson, forstjóri Húsasmiðjunnar, hefur undirritað starfslokasamning við eigendur fyrirtækisins.
Frá þessu greinir Árni, sem hefur starfað hjá Húsasmiðjunni í 12 ár, á Facebook-síðu sinni en þar segir hann:
„Ég hef haft þá ánægju að starfa með og kynnast frábæru fólki og viðskiptavinum í gegnum árin en fyrirtækið er eitt fjölbreyttasta verslunarfyrirtæki landsins og rekur fjölda starfstöðva á landsvísu undir merkjum Húsasmiðjunnar, Blómavals og Ískrafts.“
Skilað hagnaði í rúman áratug
Þá segir Árni að starfið hafi verið skemmtilegt og töluverð áskorun en þegar hann tók við fyrirtækinu vorið 2013 var það með 9% eiginfjárhlutfall og hafði reksturinn verið erfiður árin á undan.
„Við höfum skilað hagnaði undanfarin 11 rekstrarár og byggt nokkrar glæsilegar verslanir. Reksturinn stendur sterkt með rúmlega 5 milljarða eigið fé, um 60% eiginfjárhlutfall og arðgreiðslur. Á þessum tíma höfum við innleitt margar nýjungar í verslun, mannauðs- og umhverfismálum og byggt saman frábæran starfsanda í breiðum hópi á sjötta hundrað starfsmanna,“ skrifar Árni.
Að lokum tekur hann fram að þakklæti til samstarfsfólks og tryggra viðskiptavina standi honum efst í huga og að hann haldi brosandi út í sumarið.
Heimild: Mbl.is