Home Fréttir Í fréttum Gallar í 10 ára íbúðarhúsi kostað eigendurna um 80 milljónir

Gallar í 10 ára íbúðarhúsi kostað eigendurna um 80 milljónir

31
0
RÚV – RÚV - Kristján Þór Ingvarsson

Leikhús fáránleikans, segir maður sem þurfti að kosta til um 80 milljónum, til að laga tíu ára gamalt hús sem hann keypti. HMS kynnti í gærmorgun aðgerðir sem eiga meðal annars að bæta stöðu fasteignakaupenda.

Réttur fasteignakaupenda vegna galla í nýbyggingum eykst til muna verði tillögur Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar að veruleika. Róttækar breytinar á byggingareftirliti eru lagðar til.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun leggur til ýmsar breytingar á reglum um húsbyggingar til að koma í veg fyrir galla í nýbyggingum og treysta réttarstöðu húskaupenda.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun kynnti í gærmorgun tillögur að aðgerðaáætlun sem er ætlað að koma í veg fyrir eða fækka göllum á nýbyggðum húsum. Stofnunin segir fjölmörg vandamál hrjá íslenskan mannvirkjaiðnað, reglubyrði sé þung, stjórnsýslan óljós og þunglamaleg og fyrirsjáanleika skorti.

Að þessu sinni er þrennt lagt til. Ytra eftirlit verði áhættumiðað og í höndum óháðra skoðanastofa í stað byggingarfulltrúa. Staða byggingastjóra verði lögð af og hönnuðir og iðnmeistarar beri ábyrgð gagnvart verkeigenda. Og loks að neytendavernd verði stóraukin með lögbundinni byggingargallatryggingu verkeigenda.

Á móti eru felldar niður kröfur um starfsábyrgðartryggingar hönnuða og byggingastjóra, skil á áfangaúttektum falli niður sem og virkniskoðanir gæðakerfa. Þessar aðgerðir eigi að bæta stöðu fasteignakaupenda og tryggja þá betur.

Færri gallar besta neytendaverndin

„Já, það er náttúrlega vonin okkar að þetta muni leiða til þess, fyrir það fyrsta, að byggingargöllum fækki það er náttúrlega besta neytendaverndin, að það séu engir gallar. En ef upp koma gallar þá er það trygginga sem tekur þar yfir og þá losna neytendur við það að bera ábyrgð á ágreiningnum á því hvort um er að ræða galla, hver ber ábyrgð á honum og slíkt, vegna þess að það þarfnast lögfræðiaðstoðar og dómsmála oft og tíðum,“ segir Þórunn Sigurðardóttir framkvæmdastjóri sviðs mannvirkja- og sjálfbærni hjá HMS.

Þórunn segir skapa vanda að ekki liggi fyrir gögn eða upplýsingar um hversu algengir gallar í nýbyggingum eru en með miðlægum gagnagrunni skoðunarstofa ætti slíkt að fást og þá betur hægt að leggja mat á stöðuna. Krafa er uppi um að byggja mikið og byggja hratt, en Þórunn segir mikilvægast að byggja vel – ef illa sé byggt verði kostnaðurinn enn meiri. Lagabreytingar og fleira þarf til að koma kerfinu á.

„Við náttúrlega vonumst til að þetta geti gengið hratt fyrir sig, en já, það er vissulega þörf á lagabreytingum til þess að klára þetta til fullnustu.“

Þannig að það gæti tekið einhvern tíma áður en við förum að vinna eftir þessu?

„Já, að einhverju leyti en við sjáum alveg fyrir okkur að það eru aðgerðir þarna sem við getum farið strax í með tilkomu mannvirkjaskrár, þá eru okkur vegir færir þar.“

Kústskaft notað í þakkantinn

Þorgils Sigvaldason og fjölskylda keyptu árið 2017 tíu ára gamalt hús. Fljótlega komu í ljós smávægilegar steypuskemmdir hér og þar, en þegar húsið var skoðað betur og rakamælt kom í ljós að það var nánast ónýtt, gluggar voru ólöglegir og ekki samkvæmt teikningu, búið var að múra fyrir öll öndunarrör og fleira. Þau töpuðu dómsmáli að sögn Þorgils þar sem það var fyrnt og þau höfðu ekki samband við fyrri eiganda nógu snemma. Nú hafa þau nánast endurbyggt húsið. Kostnaðurinn er mikill.

„Einhvers staðar á milli 70 og 80 milljónir og svo fjórar milljónir í urðun, 5-6 milljónir í lögfræðikostnað.“

Þorgils mætti með spýtu með föstu kústskafti á fund HMS í gærmorgun.

Þetta var notað til að halda þakkantinum saman á einum stað. Og eins og fyrri eigandi sagði, það var engu til sparað með byggingarefni. Ég er búinn að leita til margra sérfræðinga og það er enginn sem hefur notað kústskaft í þakkanta. Og nota bene, þetta er okkur að kenna og við byggðum ekki einu sinni húsið. Þetta er leikhús fáránleikans.“

Heimild: Ruv.is