
Nýr baðstaður, Laugarás Lagoon, mun opna í Laugarási við bakka Hvítár í sumar. Um er að ræða baðlón á tveimur hæðum með fossi sem fólk getur gengið í gegnum. Morgunblaðið greindi fyrst frá þessum áformum í september 2023 en framkvæmdir hófust í mars í fyrra.
Í tilkynningu frá Laugarás Lagoon, segir að baðstaðurinn sé hannaður þannig að hann falli á fullkominn hátt inn í landslagið og veiti gestum einstaka upplifun.
Á staðnum verður útivistarsvæði með tveimur sánum, kaldri og heitri laug, og útisturtum. Þá segir að mikilvægur þáttur í töfrum Laugarás Lagoon verði veitingastaðurinn Ylja sem Gísli Matthías Auðunsson fer fyrir.
Á veitingastaðnum munu gestir njóta matreiðslu sem nýtir ferskt sjávarfang, og afurðir frá bændum á Suðurlandi.

Verklok áætluð í maí
„Það er mikill spenningur hjá okkur fyrir opnun baðlónsins og vinna er í fullum gangi að klára framkvæmdirnar,“ segir Bryndís Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Laugarás Lagoon, við mbl.is.
Bryndís segir að ekki liggi fyrir nákvæm dagsetning um opnun baðlónsins en áætlun um lok framkvæmda er í lok maí að hennar sögn.
Hún segir nákvæm dagsetning opnunar verði tilkynnt með vorinu.
Góð tenging við gullna hringinn
„Ég vona að staðurinn slái í gegn og við erum með miklar vonir um að svo verði. Staðsetningin er frábær og er góð tenging við gullna hringinn.
Þetta er rosalega fallegur staður í einstakri nálægð við náttúruna. Þá er hann í þægilegri akstursfjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu,“ segir hún.
Heimild: Mbl.is