Home Fréttir Í fréttum Fá ekki að grafa sand upp úr Eyjafirði

Fá ekki að grafa sand upp úr Eyjafirði

108
0
Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur staðfest ákvörðun sveitarstjórnar Hörgársveitar um að synja fyrirtækinu Gáseyrar ehf. um leyfi til efnistöku úr sjó við Gáseyri, við Eyjafjörð. Átti efnistakan að felast í því að grafa upp sand og nota hann í ýmsar framkvæmdir til að mynda vegna Dalvíkurlínu 2.

<>

Í úrskurðinum kemur fram að upphaflega sótti fyrirtækið um leyfi til efnistöku á 50.000–150.000 rúmmetrum að Gáseyri við ósa Hörgár, norðan við bæinn Gásir og sunnan landamerkja Skipalóns. Umsókinni var síðan breytt á þann veg að efnistökumagn yrði að hámarki 50.000 rúmmetrar.

Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar Hörgársveitar var fjallað um umsóknina og bókað var að sótt væri um leyfi til að taka slíkt magn af sandi á þremur árum úr sandnámu á staðnum og væri ætlunin að nota efnið við framkvæmdir vegna Dalvíkurlínu 2, vegna Móahverfis á Akureyri og fleiri framkvæmda. Var á fundinum bókað að lagt væri til við sveitarstjórn að ekki yrði veitt heimild fyrir nýrri efnistöku fyrr en skýrsla um úttekt á efnistöku lægi fyrir í tengslum við endurskoðun aðalskipulags Hörgársveitar.

Sveitarstjórn staðfesti síðan þessa niðurstöðu skipulags- og umhverfisnefndar.

Umsóknin var tekin aftur fyrir að beiðni fyrirtækisins og niðurstaðan var sú sama.

Löng hefð

Fyrirtækið kærði þá synjunina til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Benti fyrirtækið á að efnistaka hefði farið fram á Gáseyri frá árinu 1940 og þar sé að finna algjörlega sjálfbæra sandnámu sem endurnýi sig á nokkrum dögum. Efnistakan félli að öllu leyti að aðalskipulagi og umhverfisstefnu Hörgársveitar.

Þá sé framkvæmdin hvorki háð umhverfismati né samþykki Skipulagsstofnunar vegna smæðar efnistökusvæðisins og þess magns sem sótt sé um leyfi til að moka upp. Skortur sé á fínum ílagnasandi í öllum Eyjafirði eins og þeim sem finnist á Gáseyri og því keyri verktakar hundruð kílómetra eftir sama efni sem þurfi svo að vinna á staðnum með tilheyrandi kostnaðarauka fyrir verkkaupa, oftast sveitarfélögin sjálf. Þá hafi Hörgársveit gefið út framkvæmdaleyfi til efnistöku á Moldhaugnahálsi og því standist rök fyrir synjuninni ekki.

Í andsvörum sínum sagði Hörgársveit að Gáseyri sé ekki skilgreint efnistökusvæði á skipulagi og ekki verði veittar heimildir til nýrrar efnistöku í sveitarfélaginu fyrr en úttekt hafi farið fram í tengslum við endurskoðun aðalskipulags. Sú úttekt sé í vinnslu. Nú þegar séu ýmis svæði skilgreind á skipulagi sem efnistökusvæði, þar á meðal svæði á Moldhaugnahálsi. Samræmist umsóknir aðalskipulagi og/eða deiliskipulagi og uppfylli lagaskilyrði séu gefin út framkvæmdaleyfi.

Vísaði Hörgársveit ennfremur í gildandi deiliskipulag fyrir Gáseyri þar sem fram komi að náttúrufar þar sé sérstakt og á svæðinu sé þar að auki að finna fornminjar. Svæðið falli að hluta undir lög um náttúruvernd. Ennig sé þörf á umsögn bæði Umhverfisstofnunar og Skipulagsstofnunar. Sveitarfélagið sagði að fara þyrfti að öllu með gát þegar teknar væru ákvarðanir um framkvæmdir á Gáseyri vegna hins sérstaka náttúrufars svæðisins. Kanna þurfi betur áhrif efnistöku á svæðið en fyrirhuguð efnistaka fyrirtæksins hafi átt að vera 1 kílómetra frá þeim stað þar sem Hörgá renni til sjávar.

Skipulagið gildir

Í niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála segir meðal annars að í aðalskipulagi Hörgársveitar sé ekki gert ráð fyrir efnistöku á Gáseyri. Svæðið sé skilgreint sem fjarsvæði vatnsverndar. Í deiliskipulagi fyrir svæðið komi fram að hluti þess sé á náttúruminjaskrá þar sem á því finnist plöntur á válista ásamt því að svæðið hafi alþjóðlegt náttúruverndargildi vegna fuglalífs. Auk þess sé ósasvæði Hörgár ásamt Gáseyri á náttúruminjaskrá. Þá komi fram að miklar líkur séu á að fleiri fornminjar leynist á svæðinu en mældar hafi verið upp og því sé mikilvægt að ganga um svæðið allt með varúð.

Er það því niðurstaða nefndarinnar að hin fyrirhugaða efnistaka, gröftur eftir sandi í sjó, sé ekki í samræmi við skipulag á svæðinu og því sé fallist á þá ákvörðun sveitarstjórnar að veita ekki leyfi til efnistökunnar.

Heimild: Dv.is