Home Fréttir Í fréttum Fyrstu kaupendur og tekjulægri áfram í forgangi

Fyrstu kaupendur og tekjulægri áfram í forgangi

12
0
RÚV – Ragnar Visage

Fjármálaráðherra segir stöðu fyrstu kaupenda og tekjulægri hópa í forgangi á íbúðamarkaði og aðgerðum í þágu þeirra verði haldið áfram.

<>

Heildarframboð á húsnæðismarkaði er gott en það vantar íbúðir fyrir fyrstu kaupendur og tekjulægri hópa segir fjármálaráðherra, sem segir þann hóp í forgangi hjá ríkisstjórninni.

Fjármálaráðherra hefur fjallað um stöðuna á byggingamarkaði við ríkisstjórnarborðið. Hann segir erfitt að meta hana og það hafi verið viðvarandi vandamál að haggögn hafi ekki náð nægilega vel utan um markaðinn. Kannanir séu gerðar meðal annars um mönnun, hvað sé í byggingu og fleira sem og áherslur stærstu markaðsaðila.

Það sem kemur af færibandinu ekki það sem neytendur þurfa

„Og samkvæmt þeim lítur út eins og það sé ennþá mjög góð verkefnastaða og engir sérstakir flöskuhálsar þar. Hitt er annað mál að það sem kemur út úr þessu færibandi hefur kannski ekki verið nákvæmlega það sem neytendur þurfa og kalla eftir. Þess vegna er í gangi vinna og verður sett í algjöran forgang, ekki í mínu ráðuneyti en á forræði ríkisstjórnarinnar, um það að ráðast í ákveðnar bráðaaðgerðir á húsnæðismarkaði,“ segir Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra.

Aðgerðum haldið áfram

Staðan sé mjög erfið hjá mörgum. Eins og staðan sé núna virðist ekki sem framboðið í heild sinni sé vandamálið heldur samsetningin, það vanti eignir fyrir fyrstu kaupendur og tekjulægri kaupendur, sú staða sé tekin mjög alvarlega. Sem kunnugt er kom síðasta ríkisstjórn á ákveðnum úrræðum fyrir fyrstu kaupendur og fleiri.

„Það er áframhald á þeim aðgerðum sem að hefur verið gripið til. Eftirspurnin eftir þeim úrræðum hefur kannski ekki verið í samræmi við það sem menn bjuggust við en það gæti auðvitað átt eftir að breytast. En staða þessa hóps er í forgangi.“

Heimild: Ruv.is