Home Fréttir Í fréttum Ný endurvinnslustöð rís á Glaðheimasvæðinu

Ný endurvinnslustöð rís á Glaðheimasvæðinu

47
0
Jón Viggó Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sorpu. RÚV – Kveikur

Til stendur að ný endurvinnslustöð fyrir Kópavog og Garðabæ rísi á Glaðheimasvæðinu við Reykjanesbraut nærri Smáralind. Hún mun leysa af stöðina á Dalvegi sem lokar í september.

<>

Til stendur að ný endurvinnslustöð rísi á Glaðheimasvæði við Reykjanesbraut nærri Smáralind á milli Garðabæjar og Kópavogs. Stöðin kemur til með að leysa af stöðina við Dalveg 1 sem lokar í september.

Kópavogsbær hafnaði því í fyrra að ný stöð myndi rísa á kirkjugarðslandi Lindakirkju, en þær tillögur féllu í grýttan jarðveg. Jón Viggó Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sorpu, fagnar því að niðurstaða sé komin í málið og telur líklegt að hún gangi eftir.

„Það er allavega góður tónn í Kópavogi með staðsetninguna og ég held að bæjarstjórn hafi öll verið sammála um að þetta væri góður staður,“ segir Jón Viggó sem ítrekar þó að vanda þurfi vel til kynningar á staðsetningunni.

Staðsetning nýju endurvinnslustöðvarinnar á Glaðheimasvæðinu.
Kópavogsbær

Eitt af því sem réði vali á staðsetningu var að lóðin er vel staðsett með tilliti til annarra endurvinnslustöðva, á reit sem er skilgreindur sem miðsvæði í aðalskipulagi og liggur nærri umferðaræðum.

Þar sem gert er ráð fyrir að um tvö til fjögur ár séu þangað til nýja endurvinnslustöðin verður komin í gagnið verður viðskiptavinum sem áður sóttu stöðina við Dalveg beint annað í millitíðinni.

„Það verður þjónusturof því Dalvegur lokar fyrsta september 2025 og við ætlum að reyna að beina Kópavogsbúum og Garðabæjarbúum, sem hafa notað stöðina mikið á Dalvegi, yfir í Hafnarfjörð. Breiðhella er mjög góð stöð sem við ætlum að reyna að beina fólki á,“ segir Jón Viggó að lokum.

Heimild: Ruv.is