Allt að sex íbúðum verður komið fyrir í húsnæðinu, sem áður var nýtt sem heilsugæsla.
Hekla fasteignir ehf., félag í eigu Friðberts Friðbertssonar, forstjóra Heklu, hefur fest kaup á fasteigninni að Drápuhlíð 14-16 fyrir ríflega 341 milljón króna af ríkissjóði og Reykjavíkurborg. Kaupsamningur þess efnis var undirritaður í nóvember.
Í húsnæðinu var áður starfrækt heilsugæsla en hún var flutt í Skógarhlíð sumarið 2023. Að sögn Friðberts verður húsnæðinu breytt og íbúðum komið fyrir en nýtt hverfisskipulag sem tók gildi í Hlíðunum í september síðastliðnum gerir ráð fyrir að koma megi upp allt að 6 íbúðum í húsnæðinu. Á næstu dögum mun tiltekt hefjast í húsinu.
Fram kom í sumar að Hjallastefnan hefði sent skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar um breytingu á notkun húsnæðisins úr heilsugæslu í leikskóla. Skipulagsfulltrúinn tók jákvætt í það erindi en svo virðist sem málið hafi dagað uppi. Samkvæmt fasteignavef Fastans var eignin seld með fyrirvara í júní síðastliðnum en eignin fór síðan aftur á sölu í október.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kemur út í fyrramálið.
Heimild: Vb.is