Home Fréttir Í fréttum Samræming hönnunargagna

Samræming hönnunargagna

93
0
Við verklegar framkvæmdir vakna iðulega álitamál er lúta að ábyrgð á hönnun, ósamræmi í hönnunargögnum o.fl. mbl.is/Árni Sæberg

Magnús Ingvar Magnús­son lögmaður á Lands­lög­um lög­fræðistofu skrif­ar:

<>

Við verk­leg­ar fram­kvæmd­ir vakna iðulega álita­mál er lúta að ábyrgð á hönn­un, ósam­ræmi í hönn­un­ar­gögn­um o.fl. Get­ur þetta verið al­gengt þrætu­efni þegar ábyrgð á hönn­un hef­ur með ein­hverj­um hætti verið skipt milli verk­kaupa og verk­taka. Með grein þess­ari er ætl­un­in að veita yf­ir­lit yfir þær regl­ur sem gilda um ábyrgð á sam­ræm­ingu hönn­un­ar­gagna.

Í eldri skipu­lags- og bygg­ing­ar­lög­um nr. 73/​1997 var að finna regl­ur um svo­kallaðan sam­ræm­ing­ar­hönnuð. Sam­kvæmt 2. mgr. 47. gr. lag­anna var sá hönnuður er áritaði aðal­upp­drætti sam­ræm­ing­ar­hönnuður fram­kvæmda og bar sam­kvæmt reglu sömu máls­grein­ar ábyrgð gagn­vart bygg­ing­ar­yf­ir­völd­um á því að sérupp­drætt­ir, sem lagðir væru fram til samþykkt­ar, væru í sam­ræmi inn­byrðis og í sam­ræmi við aðal­upp­drætti.

Á þessu varð breyt­ing þegar sett voru ný lög um mann­virki nr. 160/​2010 sem leystu að hluta til eldri skipu­lags- og bygg­ing­ar­lög af hendi en sam­kvæmt 5. mgr. 23. gr. mann­virkjalaga skal eig­andi mann­virk­is til­nefna hönn­un­ar­stjóra sem skal hafa yf­ir­um­sjón með og bera ábyrgð á því að sam­ræm­ing hönn­un­ar­gagna fari fram.

Magnús Ingvar Magnússon.

Af ákvæði 5. mgr. 23. gr. laga um mann­virki hefði mátt álykta að hönn­un­ar­stjóri sam­kvæmt lög­un­um tæki að öllu leyti við hlut­verki sam­ræm­ing­ar­hönnuðar sam­kvæmt eldri skipu­lags- og bygg­inga­lög­um. Svo er á hinn bóg­inn ekki þar sem í 3. mgr. 23. gr. laga um mann­virki nr. 160/​2010 var að finna ný­mæli þar sem fram kem­ur að hönnuður sérupp­drátt­ar beri ábyrgð á því að hönn­un hans sam­ræm­ist aðal­upp­drætti.

Var ábyrgðar­skipt­ing­unni með þessu því breytt og ábyrgð á að sérupp­drætt­ir væru í sam­ræmi við aðal­upp­drætti færð frá aðal­hönnuði til hönnuða sérupp­drátta. Hafi verið ein­hver vafi um þetta þá var sá vafi tek­inn af þegar felld­ur var brott 3. málsliður 4. mgr. 23. gr. mann­virkjalaga sem kveðið hafði á um að hönn­una­stjóri skyldi árita sérupp­drætti til staðfest­ing­ar á að sam­ræm­ing hefði farið fram.

Í grein­ar­gerð með frum­varpi til breyt­ing­ar­laga nr. 134/​2020 sem kváðu á um þessa breyt­ingu á mann­virkjalög­um kom enda fram að það þjónaði ekki til­gangi að hönn­un­ar­stjóri áritaði alla sérupp­drætti enda bæru viðkom­andi hönnuðir sérupp­drátta sjálf­ir ábyrgð á þeim hönn­un­ar­gögn­um sem þeir legðu fram sem og að þeir væru sam­ræmd­ir við aðal­upp­drátt. Hönn­un­ar­stjóri bæri ábyrgð á því að sam­ræm­ing­in færi fram og legði fram yf­ir­lit um ábyrgðarsvið ein­stakra hönnuða sem og yf­ir­lit um innra eft­ir­lit því til staðfest­ing­ar.

Í 4. hluta bygg­ing­ar­reglu­gerðar nr. 112/​2012 er að finna sam­bæri­leg­ar regl­ur um ábyrgðar­skipt­ingu hönnuða en í grein 4.1.1 er kveðið á um að hönnuður sérupp­drátta beri ábyrgð á því að hönn­un hans sé í sam­ræmi við aðal­upp­drætti.

Sam­kvæmt 5. mgr. grein­ar 4.1.2 kall­ar hönn­un­ar­stjóri svo aðra hönnuði mann­virk­is sam­an til sam­ræm­ing­ar hönn­un­ar­gagna. Þá kem­ur fram í 6. mgr. sömu grein­ar að ef breyt­ing verður á hönn­un­ar­gögn­um eft­ir að sam­ræm­ing hef­ur farið fram beri viðkom­andi hönnuði að til­kynna hönn­un­ar­stjóra um breyt­ing­una og óska eft­ir sam­ræm­ingu hönn­un­ar­gagna eft­ir því sem við á.

Af fram­an­greindu má því vera ljóst að hver og einn hönnuður ber ábyrgð á sinni hönn­un og að hlut­verk hönn­un­ar­stjóra er að sjá til þess að sam­ræm­ing mis­mun­andi hönn­un­arþátta fari fram.

Sam­ræm­ing­in fer fram með fund­um hönnuða sem al­mennt eru haldn­ir á verktíma sem og með gæðakerf­um þar sem hönnuðir staðfesta að gæðakröf­um hönn­un­ar þeirra sé full­nægt og að skilflet­ir tækni­kerfa við aðal­upp­drætti séu í lagi. Hönnuðir sérupp­drátta árita svo upp­drætti sína þessu til staðfest­ing­ar. Það er því ekki einn aðili, eins og áður var, sem ber ábyrgð á inn­byrðis sam­ræmi hönn­un­ar­gagna en telja verður eðli­legt að ábyrgðinni sé dreift með þess­um hætti enda flækj­u­stig hönn­un­ar mann­virkja sí­fellt að aukast.

Heimild: Mbl.is