Regluverkið í kringum „heita vinnu“ þar sem unnið er með opinn loga virðist ekki nægilegt hér á landi til samanburðar við önnur lönd. Ekkert formlegt utanumhald er um hvaða aðilar valdi brunanum og hvort þeir geri það ítrekað.
Fyrir liggur að engar kröfur eru gerðar um menntun eða hæfni þeirra sem starfa við þakpappalögn, en brunahætta við slíka vinnu er töluverð og hefur slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu sinnt yfir 40 útköllum sem tengjast þess háttar vinnu á síðustu 10 árum.
Verktakar eru ekki ábyrgir fyrir brunatjóni heldur eru bætur sóttar í brunatryggingu eiganda fasteignarinnar.
Málþing um heita vinnu fór fram á vegum Sjóvá í gær þar sem fulltrúar frá slökkviliðinu og tryggingageiranum, auk erlends sérfræðings tóku til máls.
Óvæntar áskoranir í Kringlunni
Aldís Rún Lárusdóttir, sviðsstjóri forvarnasviðs slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu, segir óvæntar áskoranir hafa komið upp í tengslum við brunann í Kringlunni þar sem reyk- og vatnstjón var mikið.
Hægt var að ráðast í skjóta verðmætabjörgun og skaðaminnkun í samstarfi við tryggingarfélög og búðareigendur en tjónið var viðfangsmikið og ekki eitt sérhæft teymi sem gat gengið í verkið – líkt og er víða annars staðar.
„Það þurfti öflugar vatnssugur til að þrífa þarna og svo kom í ljós að það vantaði niðurföll, það var ekki bara hægt að skafa þetta ofan í niðurföll heldur þurfti að færa allt vatn af staðnum. Það var töluverð áskorun.“
Vantar tengsl á milli þjálfunar og leyfisveitingar
Segir Aldís skýran vilja á meðal hagaðila um að gera þurfi störf á borð við þakpappalagningu starfsleyfisskyld svo að einhver trygging sé fyrir því að fólk hafi grunnþekkingu á öryggisráðstöfunum.
Eins og er sé engin formleg eða kerfisbundin þjálfun á Íslandi til logaleyfisveitinga. Pia Ljunggren, sérfræðingur hjá Brunavarnafélagi Svíþjóðar, sérhæfir sig í heitri vinnu og tók einnig til máls á þinginu.
Brýndi Pia mikilvægi þess að starfsfólk væri meðvitað um áhættuþætti tengda heitri vinnu til þess að geta metið aðstæður hverju sinni. Lykilatriði þess væri reglubundin þjálfun starfsfólks og að leyfisveiting væri bundin slíkri þjálfun.
Bárust fleiri tilkynningar frá almenningi
Stór viðburður eins og bruninn í Kringlunni hefur skilið eftir sig spor í samfélaginu að sögn Aldísar en hún segir slökkviliðinu hafa borist fleiri tilkynningar frá almenningi um að ekki væri nógu vel staðið að brunavörnum á ýmsum vinnusvæðum, í kjölfar brunans.
Mikilvægt sé að verktakar og iðnaðarmenn taki varúðarráðstafanir alvarlega enda geti það skipt sköpum þegar t.d. er unnið er með opinn eld uppi á þaki, að slökkvitækið sé innan seilingar en ekki úti í bíl. Því sé mikilvægt að húseigendur kynni sér hvort verktakar þeirra starfi eftir ákveðnum reglum.
„Í dag er í rauninni ekkert fylgst með því hvort sömu aðilarnir séu valdar að bruna aftur og aftur. Kerfið heldur ekki utan um það af því það er sótt um brunatryggingu eiganda fasteignarinnar,“ segir Aldís.
Verktakar ekki ábyrgir fyrir brunatjóni
Eyjólfur Kristjánsson, sérfræðingur hjá Sjóva, tekur undir það og segir mikilvægt að kaupandi gæti sín líkt og þegar hann kaupi sér aðra þjónustu eða vöru. Margir viti ekki að ábyrgðartrygging verktaka tekur ekki á brunatjóni.
„Ef það kemur verktaki heim til þín sem þú biður um að leggja pappa á þakið þitt og hann kveikir í húsinu, þá koma bæturnar úr brunatryggingunni þinni og hann er kannski kominn í næstu götu og farinn að bræða pappa á hús þar,“ segir Eyjólfur.
„Þú verður svolítið að þekkja þann aðila sem þú ætlar að kaupa þjónustu af. Áður en þú getur tekið ákvörðun um að leyfa honum að vinna með opinn eld á þakinu þínu.“
Hafa eftirlit með sjálfum sér
Verktakar séu í raun oftar en ekki að annast eftirlit með eigin vinnubrögðum og öryggisráðstöfunum. Best sé að fólk leiti til sérfræðinga og óháðra aðila til að aðstoða við öryggisráðstafanir á byggingarsvæðum.
Hann minnir sömuleiðis á mikilvægi þess að uppfæra brunabótamat eftir því sem framkvæmdir og endurbætur á eign eigi sér stað á heimasíðu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, til að tryggja að tryggingar séu í samræmi við virði eignarinnar.
Segir Eyjólfur vert að skoða hvort hagaðilar á borð við vátryggingafélög, eldvarnarbandalagið og slökkviliðið geti lagst á eitt um að koma á strangara regluverki í kringum eldvarnir í byggingariðnaðinum.
Það gæti t.d. fallið í hlut vátryggingafélaga að uppfæra skilmála sína og gera kröfu um að ítarlegri öryggisráðstafanir séu gerðar þegar kemur að t.d. heitri vinnu.
Heimild: Mbl.is