Saksóknarar hafa hafið rannsókn á aðdraganda þess að hluti Torre dei Conti turnsins í Róm hrundi í gær. Verkamaður sem varð undir rústunum og var bjargað eftir 11 tíma aðgerðir lést á sjúkrahúsi.
Saksóknarar á Ítalíu hafa hafið rannsókn á andláti verkamanns sem vann við endurbætur á Torre dei Conti turninum í Róm þegar hluti af honum hrundi í gær. Verkamaðurinn, sem var rúmenskur en hafði verið búsettur á Ítalíu í 30 ár, var fastur undir rústum í 11 tíma áður en honum var bjargað en var úrskurðaður látinn á sjúkrahúsi. Málið er rannsakað sem manndráp.
Björgunaraðgerðin var flókin í gær þar sem turninn var ótraustur og stöðugt smáhrun úr honum. Því varð að vinna hægt til að tryggja öryggi björgunarfólks.
Verið var að gera endurbætur á turninum, sem var byggður á 13. öld, þegar atvikið átti sér stað. Fyrirtæki skipað sérfræðingum í svona endurbótum sá um framkvæmdirnar og var tilgangurinn að gera bygginguna traustari. Endurbæturnar voru fjármagnaðar með sérstökum sjóði á vegum Evrópusambandsins sem ætlað var að hjálpa löndum að koma efnahagnum af stað eftir heimsfaraldurinn.
Getgátur eru uppi um að jarðskjálfti nærri Lazio á laugardag, sem var 3,3 að stærð, hafi veikt undirstöður turnsins. Sá skjálfti fannst á nokkrum stöðum í Róm. Atvikið hefur komið af stað umræðu um almennt öryggi vinnustaða á Ítalíu en stærsta verkalýðsfélag landsins segir öryggismál á vinnustöðum í lamasessi.
Frekari framkvæmdir hafa verið stöðvaðar við turninn þangað til rannsókn lögreglu er lokið.
Heimild: Ruv.is












