Tvær verkfræðistofur, Verkís og VSÓ, hafa skilað skýrslu til Reykjavíkurborgar vegna galla sem komu upp í Brákarborg, nýjum leikskóla við Kleppsveg 150-152.
Þar kemur fram að ekki voru settar stoðir undir þakplöturnar þegar steypt var og ekki var sett steypustyrktarjárn í tengingar milli plötu og ásteypulags. Það er því mat Verkís að ásteypulagið hafi ekki aukið styrk plötunnar heldur virki þunginn einungis sem álag á plötuna. Því til viðbótar var sett torf á þakið.
Forsaga málsins er sú að rúm tvö ár eru síðan nýi leikskólinn var opnaður og miklar væntingar voru bundnar við húsnæðið. Í september 2022 fékk Reykjavíkurborg viðurkenninguna Grænu skófluna fyrir byggingu skólans en þau eru veitt fyrir mannvirki sem byggð hafa verið með framúrskarandi vistvænum og sjálfbærum áherslum.
Dagur B. Eggertsson þáverandi borgarstjóri sagði er hann tók við Grænu skóflunni að viðurkenningin staðfesti allt það sem lá til grundvallar ákvörðun þeirra á sínum tíma og sýni hvernig hægt sé að endurbyggja gömul hús og veita þeim nýtt hlutverk á umhverfisvænan hátt.
Í skýrslu Verkís kemur fram að reiknað álag frá ásteypulaginu og torfinu sé mun meira en uppgefið notálag sem tilgreint er á teikningum og plöturnar hannaðar fyrir. Niðurstöður útreikninga gefi til kynna að reiknað álag á burðarvirki þakplatnanna sé umfram álagsþol þeirra, reiknað samkvæmt gildandi stöðlum.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.
Heimild: Mbl.is