Home Fréttir Í fréttum Tíu berjast um hverja lóð í út­sýnis­hlíð í Mos­fells­bæ

Tíu berjast um hverja lóð í út­sýnis­hlíð í Mos­fells­bæ

87
0
Mynd: VÍSIR/VILHELM

Í nýafstöðnu lóðaútboði í Mosfellsbæ bárust 389 umsóknir um 39 lóðir, en auglýstar voru 30 einbýlishúsalóðir, 8 parhúsalóðir og ein fjögurra eininga raðhúsalóð. Lóðirnar eru í suðurhlíðum í Helgafellslandinu. Bæjarstjóri segist gríðarlega ánægður með eftirspurnina.

<>

Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri í Mosfellsbæ, segir að fleiri umsóknir hafi borist en búist var við. „Þetta eru mjög flottar lóðir, standa í hlíð með góðu útsýni. Við vissum alveg að það yrði áhugi, en þetta er meira en við bjuggumst við,“ segir Regína.

Regína Ásvaldsóttir er gríðarlega ánægð með eftirspurnina eftir lóðunum, sem var meiri en búist var við.
VÍSIR/VILHELM

Margir séu þarna að sækja um fleiri en eina lóð, þannig ekki er um að ræða 389 mismunandi lögaðila. „Það er auðvitað bara mjög algengt í svona útboðum að fólk sé að sækja um fleiri en eina lóð.

Við erum með þá reglu í þessu, að hver aðili geti aðeins fengið eina einbýlishúsalóð, en það er ótakmarkað með parhúsalóðirnar og raðhúsalóðina,“ segir Regína.

Hún segir að umsóknirnar komi bæði frá einstaklingum og verktökum, töluvert sé samt af einstaklingum. „Við vorum bara að opna þessar umsóknir í gær, þessar 389 og erum að skoða þetta. Næsta skref er að kanna fjárhagslegt hæfi og svona vinna úr þessu. Við reiknum með að klára þetta í júlí,“ segir Regína.

Heimild: Visir.is