Sigmar Guðmundsson þingmaður Viðreisnar byrjaði ræðu sína í eldhúsdagsumræðum á því að ræða veðrið á Íslandi og það lága hitastig sem við búum við. Hann sagði á sama tíma það vera alveg sturlað að sama tala væri á stýrivöxtum mánuðum saman og meðalhitastigi á sumrin.
„Mánuðum saman, langtímum saman, eru stýrivextir á Íslandi þeir sömu tölu og meðalhiti í sumarmánuði. Þetta er alger sturlun. Þetta er mannanna verk,“ sagði Sigmar í ræðu sinni.
Hann sagði hitann stundum fara hærra, jafnvel í 17 gráður. Sem sé einmitt sama tala og vextir á yfirdráttarlánum. Þetta væri staðan í íslenska krónu hagkerfinu.
„Við erum að glíma við vaxtaokur og verðbólgu brjálæði. Vextir eru alltaf hærri hérna á Íslandi og verðbólga er alltaf hærri hér á Íslandi heldur en í nágrannalöndunum.
Þetta er óréttlátt. Það er óréttlátt að íslensk heimili þurfi að borga meira en tíu prósent í vexti á sinni dýrustu fjárfestingu, sem er húsnæði. Það er staðan í dag, rúmlega tíu prósent vextir á óverðtryggðum húsnæðislánum. Þetta er óréttlátt.
Það er óréttlátt að við Íslendingar þurfum að borga íbúðina okkar, ungt fólk, íbúðina sína, fasteignina sína, tvisvar til þrisvar á meðan fólk í nágrannalöndunum gerir það ekki,“ sagði Sigmar á þingi í kvöld.
Viðreisn einu sem vilja breyta
Hann sagði sömuleiðis óréttlátt að lítil og millistór fyrirtæki búi við erfitt vaxtaumhverfi og að stærstu fyrirtækin geti labbað út úr krónuhagkerfinu.
Hann sagði Viðreisn eina flokkinn sem vilji breyta þessu með því að skipta um gjaldmiðil.
„Vandinn okkar er nefnilega gjaldmiðillinn, einn minnsti gjaldmiðill í Evrópu, gjaldmiðill sem er eins og myllusteinn um hálsinn á okkur öllum. Við getum breytt þessu þótt við getum ekki breytt veðrinu, og við eigum að gera það.“
Heimild: Visir.is