Leigufélagið Alma segir í umsögn við frumvarp að leigusalar í Grindavík sitji uppi með íbúðir þar. Nú geti aðeins eigendur með lögheimili í íbúðarhúsnæði selt til fasteignafélagsins Þórkötlu, sem gangi gegn jafnræðis og sanngirnisrökum.
Fasteignafélagið Alma vill að sömu reglur gildi um alla eigendur íbúðarhúsnæðis í Grindavík. Ekki sé gert ráð fyrir stuðningi við leigusala í nýju frumvarpi um stuðningsaðgerðir.
Alma á og leigir út tæplega 1.100 íbúðir víða um land, þar af ellefu í Grindavík.
Í umsögn Ölmu við frumvarp vegna framhalds á stuðningsaðgerðum vegna náttúruhamfara í Grindavík segir að félagið styðji markmið frumvarpsins og aðgerðir ríkisstjórnarinnar, enda sé mikilvægt að þétta öryggisnet samfélagsins og samtryggingu á slíkum hamfaratímum, eins og það er orðað.
Alma bendir þó á að ekkert af úrræðunum í frumvarpinu nýtist leigusölum, hvorki félögum né einstaklingum og því sé tjón þeirra óbætt. Engar tekjur séu af íbúðum í Grindavík, en kostnaðurinn haldist óbreyttur.
Einstaklingum með lögheimili í Grindavík hafi boðist að selja húsnæði sitt til Fasteignafélagsins Þórkötlu, en það gildi aðeins ef eigandi sé með skráð lögheimili þar.
Þar telur Alma að jafnræðis- og sanngirnisrök séu fyrir því að allir eigendur íbúðarhúsnæðis sitji við sama borð og vitnar í stjórnarskrárákvæði um að allir skuli vera jafnir fyrir lögum.
Þess vegna leggi Alma til að lögin verði útvíkkuð svo þau nái yfir allt íbúðarhúsnæði í Grindavík hvort sem eigandinn sé félag eða einstaklingur og óháð lögheimilisskráningu.
Frumvarpið er hjá efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis og mun svo fara í aðra umræðu á þingi.
Heimild: Ruv.is