Þjónustustöð og veitingaskáli sem reistur hefur verið við Markarfljótsbrú, við afleggarann að veginum að Landeyjahöfn, verður opnaður síðari hluta maímánaðar.
Svarið ehf. stendur að þessu verkefni. Sveinn Waage markaðsstjóri fyrirtækisins lýsir málinu þannig að nú sé að koma fram á sjónarsviðið ný kynslóð greiðasölustaða við þjóðveginn.
„Þetta er bensínstöð án eldsneytis,“ segir Sveinn og á þar við að fyrir utan bygginguna verði rafhleðslustöðvar en ekki sala á bensíni eða olíu.
Sinna fólki á leiðinni til Eyja
Austur við Markarfljót er nú komið 550 fermetra timburhús í langbæjarstíl, sem setur sterkan svip á umhverfið.
Inni í húsinu verður veitingasalur og verslun með ýmsum nauðsynjum sem viðskiptavinir munu yfirleitt nálgast með sjálfsafgreiðslu.
Einnig verður í húsinu hreinlætisaðstaða og upplýsingaþjónusta. Þar verður áhersla lögð á að sinna fólki á leiðinni til Vestmannaeyja.
Heimild: Mbl.is