Grænar áherslur verða í fyrirrúmi í nýju húsi sem rísa mun að Frakkastíg 1.
Verkefnið var valið í samkeppni Reykjavíkurborgar um „grænt húsnæði framtíðarinnar” og í vikunni var fyrsta skóflustungan tekin.
Uppbygging er á hendi Iðu fasteignaþróunarfélags og Lendager Ísland hefur leitt hönnun verksins. Björt Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Iðu, segir að kolefnisfótspor hússins verði 50% minna en venja er, og að lögð verði rík áhersla á að endurnýta auðlindir í uppbyggingunni eins og kostur er.
Húsið sé hannað með það að markmiði að vera í fararbroddi bygginga á Íslandi sem minnkar umhverfisálag á loftslag og náttúru. Björt segir að unnið sé eftir stefnumörkun stjórnvalda, bæði ríkis og borgar, um samdrátt í kolefnislosun í mannvirkjageiranum.
Einar Þorsteinsson, borgarstjóri er ánægður með áfangann: „Með samkeppninni Grænt húsnæði framtíðarinnar bjó Reykjavíkurborg til hvata fyrir vistvæna húsnæðisuppbyggingu í Reykjavík.
Það hefur verið ánægjulegt að sjá hvað Iða og þeirra ráðgjafateymi hefur tekið vel undir grænar áherslur borgarinnar og sýnt bæði metnað og vilja til að beita nýjum aðferðum svo draga megi verulega úr losun framkvæmdarinnar. Verkefnið brýtur blað í þróun mannvirkja á Íslandi og mun vonandi vísa veginn í átt að vistvænni mannvirkjagerð.”
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Um 35% af losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu má rekja til mannvirkjageirans og af því eru borgir ábyrgar fyrir um 90%.
Íslensk stjórnvöld hafa sett sér metnaðarfull markmið um kolefnishlutleysi og samdrátt í losun og til að þau markmið náist þurfa stjórnvöld, almenningur og fyrirtæki að leggja sitt af mörkum.
Að draga úr umhverfisálagi bygginga, líkt og gera á með húsi því sem sem skóflustunga var tekin að hér, er gott innlegg í þeirri baráttu.“
Íbúðir og atvinnuhúsnæði
Tíu íbúðir verða á Frakkastíg 1. Húsið verður sjö hæðir og verður atvinnuhúsnæði á jarðhæð með útsýni til Esjunnar og gengt verður út í garð á lóð hússins til suðvesturs. Íbúðirnar munu njóta birtu úr öllum áttum og verða ýmist með útsýni til sjávar eða til suðvesturs að Hallgrímskirkju. Stærðir íbúða verða á bilinu 60 – 240 fermetrar.
Iða fasteignaþróun er lóðarhafi og arkitektar eru Lendager group, dönsk/íslensk arkitektastofa og yfirhönnuður er Arnhildur Pálmadóttir. Hannarr verkfræðistofa sér um burðarþol, Teknik um lagnir, Lúmex um raflagnir, Bekke/Strand sér um hljóðhönnun og brunahönnun er í umsjón verkfræðistofunnar Örugg.
Heimild: Reykjavik.is