Home Fréttir Í fréttum Vinna við landfyllingar fyrir Fossvogsbrú hefjist í sumar

Vinna við landfyllingar fyrir Fossvogsbrú hefjist í sumar

58
0
Hér sést tölvugerð mynd af Öldu, fyrirhugaðri brú yfir Fossvog. Skjáskot – Efla

Hönnun og væntanlegar framkvæmdir við Fossvogsbrú voru til kynntar fyrir umhverfis- og skipulagsnefnd Reykjavíkur í gær. Framkvæmdir við landfyllingu hefjast í ár, en brúarsmíði á næsta ári. Sjálfstæðismenn hafa áhyggjur af hækkandi kostnaði.

<>

Stefnt er að því að vinna við landfyllingar við Öldu, eins og brúin yfir Fossvog mun heita, hefjist í sumar og vinna við sjálfa brúarframkvæmdina á næsta ári. Þetta kom fram í kynningu á fundi umhverfis- og skipulagsnefnd Reykjavíkur í gær.

Fulltrúar meirihlutans í nefndinni sögðu í bókun að Alda myndi nýtast fjölbreyttum ferðamátum, Borgarlínu sem og gangandi og hjólandi vegfarendum.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lýstu hins vegar yfir áhyggjum af því hve kostnaðaráætlun hafi hækkað frá upphaflegum áætlunum. Hún standi nú í 8,8 milljörðum króna, sem þau telja þó óraunhæft enda sé brúin mjög sérhæft mannvirki.

Þá segja þau athyglisvert að horfið hafi verið frá því að hafa ryðfrítt stál í burðarvirki, sem þau draga í efa að sé skynsamleg ráðstöfun.

Loks vekja þau athygli á því að þar sem brúarstæðið sé í aðflugsstefnu Reykjavíkurflugvallar þurfi að gæta þess að kranar og framkvæmdir á svæðinu ógni ekki flugöryggi.

Þá bókaði áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins að stór galli væri á hönnun brúarinnar að hafa göngustíg austan megin og hjólastíg vestan, en ekki öfugt.

Í fréttatilkynningu frá Umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar segir að áætlað sé að hefja vinnu við brúargerð og landfyllingar Reykjavíkurmegin í byrjun næsta árs.Vinna við landfyllingar í Skerjafirði eiga að hefjast árið 2026 og samhliða verður unnið við brúargerð. Verklok eru áætluð á árinu 2027.

Gert er ráð fyrir að 900 tonn af stáli fari í yfirbyggingu brúarinnar, sem verður í fimm höfum með steyptu brúargólfi. Forsmíðaðar einingar verða notaðar í stöpla og yfirbyggingu brúarinnar sem verður 270 m að lengd.

Framkvæmd við Fossvogsbrú var samþykkt í borgarráði haustið 2018.

Heimild: Ruv.is