Home Fréttir Í fréttum Stór­tækir í­búða­eig­endur sanka að sér í­búðum

Stór­tækir í­búða­eig­endur sanka að sér í­búðum

182
0
Reikna má með því að ríflega þriðjungur íbúðanna á þessari mynd sé í eigu stórtækra íbúaðeigenda. VÍSIR/VILHELM

Íbúðum í eigu lögaðila og einstaklinga sem eiga fleiri en eina íbúð fjölgaði um tvö þúsund á síðasta ári og fjölgunin hefur ekki verið jafnmikil frá árinu 2010.

<>

Þetta segir í tilkynningu á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Þar segir að samkvæmt tölum, sem HMS hefur unnið úr fasteignaskrá, hafi dregið verulega úr fjölgun íbúða í eigu einstaklinga sem eiga aðeins eina íbúð, en þeim hafi fjölgað um rúmlega 1.000 í fyrra. Til samanburðar hafi íbúðum með sams konar eignarhald fjölgað um 1.300 árið 2022, um 2.400 árið 2021 og um 2.800 árið 2020.

Fjölgun íbúða í eigu lögaðila og einstaklinga sem eiga fleiri en eina íbúð hafi hins vegar aukist töluvert á síðustu tveimur árum. Slíkum íbúðum hafi fjölgað um 2.300 í fyrra, miðað við 1.600 íbúða fjölgun árið 2022 og 800 íbúða fjölgun árið 2021.

Myndin sýnir fjölgun íbúða eftir eignarhaldi, en samkvæmt henni fór fjölgun íbúða að mestu leyti til einstaklinga sem áttu eina íbúð tímabilinu 2016-2021. Fjölgunin gefur góða mynd af innkomu fyrstu kaupenda á húsnæðismarkað, sem var umfangsmikil á því tímabili. Á síðustu tveimur árum hefur fyrstu kaupendum hins vegar fækkað auk þess sem fleiri fullbúnar íbúðir hafa verið óseldar og í eigu fyrirtækja í mannvirkjagerð.

Ekki meiri fjölgun frá árinu 2010
Í tilkynningu segir að íbúðum í eigu lögaðila og stærri íbúðaeigenda hafi fjölgað með nokkuð jöfnum hætti á árunum 2016 til 2021, en árleg fjölgun hafi þá verið á bilinu 500 til 1.300 á ári. Á síðustu árum hafi svo orðið viðsnúningur þar á, en leita þurfi aftur til ársins 2010 til að finna viðlíka fjölgun með slíkt eignarhald og í fyrra.

Stærstur hluti fjölgunarinnar á íbúðum í eigu lögaðila og einstaklinga sem eiga meira en eina íbúð sé vegna íbúðakaupa lögaðila, en íbúðum í eigu þeirra hafi fjölgað um 1.345 á síðasta ári. Þar af hafi íbúðum í eigu lögaðila sem áttu fleiri en tuttugu íbúðir fjölgað um 794.

Stórtækir íbúðaeigendur eiga 55 þúsund íbúðir
Í fyrra hafi verið annað árið í röð sem íbúðum í eigu einstaklinga sem eiga fleiri en eina íbúð fjölgaði svipað mikið og íbúðum í eigu einstaklinga sem eiga eina íbúð. Íbúðum þeirra sem eiga fleiri en eina íbúð hafi fjölgað um 820 og af þeim séu 287 í eigu einstaklinga sem eiga þrjár til fjórar íbúðir.

Á vef fasteignaskrár megi sjá skiptingu íbúða eftir eignarhaldi. Þar sjáist að alls eru um 155 þúsund fullbúnar íbúðir á landinu. Þar af séu um 100 þúsund íbúðir sem eru í eigu einstaklinga sem eiga aðeins eina íbúð, en 55 þúsund íbúðir í eigu lögaðila eða einstaklinga sem eiga fleiri en eina íbúð.

Heimild: Visir.is