Samkaup hafa óskað eftir lóð á Húsavík undir nýja verslunarmiðstöð við Norðausturveg sunnan Þorvaldsstaðaár en þetta kemur fram í fundargerð Skipulags- og framkvæmdaráðs í sveitarfélaginu Norðurþingi.
Gert er ráð fyrir Nettóverslun í húsnæðinu en strangt til tekið óskar Ásgeir Ásgeirsson eftir lóðinni fyrir hönd Samkaupa og KSK eigna ehf. Umtalsverðar framkvæmdir eru fram undan ef af verður.
Í fundargerðinni er bókað að skipulags- og framkvæmdaráði lítist vel á „framlagðar hugmyndir og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að hefja vinnu við skipulag svæðisins“.
Einnig hafi ráðið verið upplýst um túnblett sem sé á erfðafestu og sé að hluta til á fyrirhuguðu skipulagssvæði.
Markaðstorg á lóðinni?
Þar af leiðandi má væntanlega búast við því að málið verði til frekari umfjöllunar innan stjórnsýslunnar í Norðurþingi.
Á fundinum var lögð fram kynning á verkefninu frá umsækjendum sem unnin var af T.ark arkitektastofu. Þar kemur fram að mismunandi stór verslunarrými geti verið í byggingunni eins og hún sé hugsuð. Gert sé ráð fyrir 90 bílastæðum og rafbílastæðum en mögulegt sé að stækka bílastæði, byggingar og vörumóttöku til suðurs.
Fyrir framan verslunina er sá valmöguleiki fyrir hendi að vera með torg sem gæti samkvæmt kynningunni verið markaðstorg með litlum sölubásum.
„Þar væri seldur ýmis varningur s.s. afurðir beint frá býli. Þar geta einnig verið setbekkir og borð sem hægt er að tylla sér á, á góðviðrisdögum. Eins má sjá fyrir sér jólamarkað í desember, þar sem hægt væri að gæða sér á jólaglögg og piparkökum og versla ýmsan jólavarning.“
Verslanir Nettó eru alls tuttugu talsins og í flestum landshlutum. Nettó rekur nú verslun á Húsavík á Garðarsbraut. Húsvíkingur sem blaðið ræddi við benti á að framkvæmdunum muni fylgja fyrsta hringtorgið í bænum.
Heimild: Mbl.is