„Þetta er skemmtileg hugmynd en hún er enn bara á frumstigi,“ segir Jón G. Valgeirsson, sveitarstjóri í Rangárþingi ytra.
Sveitarstjórn hefur samþykkt að gerðar verði breytingar á landnotkun í aðalskipulagi vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar í Gaddstaðaeyju í Ytri-Rangá við Hellu.
Eyjan er í eigu hjónanna Ólafs Einarssonar og Steinunnar Birnu Svavarsdóttur sem kennd eru við fyrirtækið Þjótandi.
Þau hafa hug á að íbúðabyggð fyrir allt að 12 einbýlishús rísi norðan til á eyjunni en sunnanmegin verði byggt hótel fyrir allt að 200 gesti auk útivistarsvæðis. Hótelinu fylgi afþreying á borð við baðlón.
Málið var tekið fyrir í skipulags- og umferðarnefnd sveitarfélagsins í liðinni viku og þar komu fram ýmsar athugasemdir. Jón sveitarstjóri segir að næsta skref eigenda sé að skoða umræddar athugasemdir og í kjölfarið að hefja vinnu við formlega skipulagstillögu.
Ítarlegri umfjöllun er að finna á síðu 11 í Morgunblaðinu í dag.
Heimild: Mbl.is