Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar samþykkti samhljóða á fundi sínum fyrir jól að ráðast í byggingu viðbyggingar við núverandi íþróttahús bæjarins við Skólamörk. Á sama fundi var horfið frá þeirri hugmynd að taka á leigu atvinnuhúsnæði fyrir íþróttir í Hveragerðisbæ.
Viðbyggingin við íþróttahúsið verður hönnuð í samvinnu við Íþróttafélagið Hamar en almennt miðað við að hún nýtist sem flestum íþróttagreinum. Framkvæmdir munu hefjast á þessu ári og er markmiðið að húsið geti verið komið í notkun á árinu 2025.
Allir sammála
Á bæjarstjórnarfundi þann 1. nóvember síðastliðinn var ákveðið að skoða möguleika á stækkun á íþróttahúsinu við Skólamörk. Sú athugun hefur leiddi til þess að allir bæjarfulltrúar, bæði meirihlutinn og minnihlutinn, tóku höndum saman um tillöguna að stækkun íþróttahússins.
Gert er ráð fyrir að hægt verði að koma upp nýjum íþróttasal í fyrsta áfanga fyrir um 605 milljónir króna auk kostnaðar við hönnun. Á síðari stigum mun salurinn nýtast til keppni og vera með áhorfendaaðstöðu og er gert ráð fyrir að seinni áfanginn kosti tæpar 195 milljónir króna.
Samtals 1.890 fermetra stækkun
Samkvæmt tillögu sem kynnt hefur verið verður íþróttahúsið stækkað sem æfingahúsnæði til vesturs um sirka 1.470 m2 í fyrri áfanga og svo sem keppnishús um ca. 420 m2 í seinni áfanga. Um er að ræða stálgrindarhús, klætt með yleiningum og stálklæðningu. Þakið mun sitja að hluta á styrktum súlum í vesturvegg núverandi íþróttahúss og verður vesturveggur núverandi húss opnaður að hluta og tengir saman nýtt og gamalt íþróttahús.
Hamarshöllin komin á ís
Áformum um endurbyggingu Hamarshallarinnar hefur verið frestað en á fundinum fyrir jól var samþykkt tillaga um að athuga samstarf við Íþróttafélagið Hamar um framkvæmd og uppbyggingu gervigrasvallar og í framhaldinu rekstur félagsins á mannvirkinu.
Heimild: Sunnlenska.is