„Þetta er auðvitað mjög óheppilegt. Við urðum af þessum tekjum sem gert var ráð fyrir í áætlunum ársins 2023,“ segir Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi.
Mistök í stjórnsýslu bæjarins ollu því að gjaldskrárhækkun hjá Hitaveitu Seltjarnarness, sem samþykkt hafði verið og átti að taka gildi um síðustu áramót, tók ekki gildi.
Umrædd hækkun hefði skilað hitaveitunni um 20 milljónum króna það sem af er ári að sögn Þórs. Hún hefur nú tekið gildi en fyrir vikið mega íbúar bæjarins búast við frekari gjaldskrárhækkunum á nýju ári.
Í lok síðasta árs var samþykkt að hækka gjaldskrár vegna fráveitu, kalds vatns og heits vatns um 15% á Seltjarnarnesi.
Umhverfisráðuneytið gerði athugasemd við hækkun á heita vatninu þar eð orkulög kveða á um 7% hámark á arðgreiðslu og hafði Seltjarnarnes farið yfir það að einhverju leyti árin 2020 og 2021 að sögn bæjarstjórans.
Hækkunin hefur þó fengist samþykkt núna og hefur verið auglýst í Stjórnartíðindum og tekið gildi. Mannleg mistök á skrifstofu bæjarfélagsins ollu því hins vegar að skilaboðum um að hækkunin hefði ekki tekið gildi í ársbyrjun var ekki komið áleiðis til æðstu stjórnenda.
„Ég viðurkenni að ég átti að hafa eftirlit með þessu en ég uggði ekki að mér. Það sem blindaði mig voru fjármagnsliðir af stóru láni sem við tókum fyrir nýrri borholu.
Við erum auðvitað að eiga við nánast 10% verðbólgu og við töldum einfaldlega að þessir fjármagnsliðir lána væru farnir að hafa svona mikil áhrif á tekjustreymið,“ segir Þór.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag
Heimild: Mbl.is