Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir frumvarp forsætisráðherra um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesi verða rætt á þingi á morgun. Hún geri sterklega ráð fyrir að það verði samþykkt.
Katrín Jakobsdóttir lagði í gær fram frumvarp um að þeim ráðherra sem fari með málefni almannavarna sé heimilt að fenginni tillögu ríkislögreglustjóra að taka ákvarðanir um nauðsynlegar framkvæmdir í þágu almannavarna, þar á meðal uppbyggingu varnargarða.
Í samtali við blaðamann mbl.is að ríkistjórnarfundi loknum staðfesti dómsmálaráðherra að frumvarpið væri á hennar málefnasviði.
„Allir flokkar héldu þingflokksfund í gær, þar sem þetta var samþykkt í þingflokkum, og ég vænti þess að Alþingi Íslendinga muni samþykkja frumvarpið á morgun.“
Hefja ekki framkvæmdir nema öryggi sé tryggt
Spurð hvenær væri hægt að hefjast handa við framkvæmir á varnargörðum á Reykjanesskaga segir Guðrún að í raun væri hægt að hefjast handa um leið og frumvarpið væri samþykkt. Þar sem neyðarstig sé í gildi á svæðinu, komi hins vegar ekki til greina að senda fólk þangað í vinnu þar til öryggi þeirra sé tryggt.
Segir ráðherra höfuðáherslu lagða á varnargarða við orkuverið í Svartsengi, enda sé erfitt að segja til um hvort hægt sé að reisa varnargarða við Grindavík eins og er, enda geri þeir lítið gagn ef gos komi upp í bænum sjálfum.
Viðlagasjóðshús borist til tals
Spurð hvort til greina hafi komið að byggja viðlagasjóðshús líkt og í kjölfar gossins í Heimaey fyrir 50 árum, segir hún innviðaráðherra þegar hafa tekið það til skoðunar.
„Við erum núna fyrst og síðast að kortleggja það húsnæði sem fyrir er í landinu,“ segir Guðrún og nefnir sem dæmi sumarhúsabyggðir. Hún minnist þess sjálf að Vestmannaeyingar hafi búið í sumarbústöðum í Ölfusborgum austan við Hveragerði, heimabæ hennar.
Hún kveðst þó gera ráð fyrir að verkefnið verði krefjandi enda sé þegar húsnæðisskortur í landinu.
Mikilvægt að grípa þá sem ekki eiga bakland
Guðrún hrósar einnig Íslendingum fyrir viðbrögð þeirra í kjölfar skyndilegrar rýmingar á föstudagskvöldið.
„Það var einstakt að sjá á föstudagskvöldið, hvernig íslenska þjóðin tók á móti Grindvíkingum.“
Segir ráðherrann að gert hafi verið ráð fyrir að fleiri hundruð manns myndu leita í fjöldahjálparstöðvar Rauða krossins, en að færri en 200 hafi þangað leitað.
Flestir þeirra hafi hins vegar verið einstaklingar af erlendu bergi brotnir, sem ekki eigi sterkt bakland á Íslandi og því sé mikilvægt að samfélagið grípi þann hóp.
Heimild: Mbl.is