„Okkur íbúum hér við Árskóga er sýnd mikil óvirðing með þessum sóðaskap í næsta nágrenni og ekki síður hvernig við erum algerlega hunsuð þegar kemur að upplýsingagjöf og því hvernig málum er raunverulega háttað,“ segir Sigrún Sighvatsdóttir, íbúi í Árskógum í Reykjavík, en upp við íbúðarhúsin eru háir malarhaugar sem hafa verið að hlaðast upp í fleiri ár. Frá malarhaugunum fýkur sandur og mold um hverfið og inn í íbúðirnar, íbúum til mikils ama.
„Menn alveg þekkja þetta mál og ef þú ferð þarna upp eftir er þetta ekkert sem fer fram hjá manni,“ segir Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Í skriflegu svari til Morgunblaðsins rekur Kjartan málið en hann hefur leitað svara innan borgarkerfisins. Frá því í júní hefur hann spurst fyrir um málið innan borgarinnar en ekki fengið skýr svör.
Hinn 13. júlí lagði hann inn skriflega fyrirspurn, en hana hefur dagað uppi. „Slík upplýsingatregða er með ólíkindum því auðvitað eiga íbúar, sem og kjörnir fulltrúar og fjölmiðlar, rétt á að fá skýr svör um slík mál án undandráttar,“ segir Kjartan.
Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í gær.
Heimild: Mbl.is