Meira en helmingur innflytjenda, eða 56%, telur sig hafa orðið fyrir vinnumarkaðsbrotum á síðasta ári, en það er mun hærri tala en hjá innfæddum þar sem hlutfallið er 29%. Á sama tíma eru innflytjendur um fimmtugur þess fjölda sem er á vinnumarkaði, en um helmingur af launakröfum sem stéttarfélög gera er fyrir hönd félagsfólks af erlendum uppruna. Þetta er meðal niðurstaðna sem koma fram í nýrri skýrslu ASÍ um vinnumarkað og brotastarfsemi.
Aldur og húðlitur hefur mikil áhrif
Könnun sem var unnin í tengslum við gerð skýrslunnar leiðir einnig í ljós að ungt fólk segist í mun meiri mæli hafa orðið fyrir vinnumarkaðsbrotum en þeir sem eldri eru. Nemur hlutfallið allt að 70% hjá yngsta hópnum, en lækkar svo eftir því sem aldur hækkar. Þá
Jafnframt kemur fram í niðurstöðum könnunarinnar að mun hærra hlutfall launafólks með annan húðlit en hvítan hafi orðið fyrir vinnumarkaðsbrotum en þeir sem eru með hvítan húðlit. Þannig telja 60% þeirra sem eru með annan húðlit en hvítan sig hafa orðið fyrir vinnumarkaðsbrotum á síðasta ári samanborið við 36% þeirra sem eru með hvítan húðlit.
Tvískiptur vinnumarkaður
Í ávarpi Finnbjörns A. Hermannssonar, forseta ASÍ, í upphafi skýrslunnar segir hann skýrsluna leiða í ljós tvískiptingu vinnumarkaðar á Íslandi og að sú staða kalli á viðbrögð. Hún varpi ljósi á þau snöggu umskipti sem hafi orðið hér á landi á vinnumarkaði með fjölgun erlendra launamanna.
Segir Finnbjörn að erlent launafólk sé hingað komið til að uppfylla þörf atvinnulífsins fyrir vinnuafl og að hagkerfið geti ekki án þeirra verið. Það eigi sérstaklega við um ferðaþjónustu og byggingariðnað og ýmsar afleiddar greinar, en í þeim greinum segjast einmitt flestir hafa orðið fyrir vinnumarkaðsbrotum á síðasta ári.
Beinir hann líka sjónum sínum að unga fólkinu og segir ástæða til að staldra við niðurstöður skýrslunnar sem bendi til að mun hærra hlutfall ungs fólks telji á sér brotið en þeir sem eldri eru.
Hæsta hlutfall brota í ræstingum, mötuneytum og veitingahúsum
Hæsta hlutfall vinnumarkaðsbrota áttu sér stað gegn starfsfólki í ræstingum, mötuneytum og veitingahúsum, samkvæmt könnuninni, en þar taldi rúmlega helmingur svaranda sig hafa orðið fyrir vinnumarkaðsbrotum á síðasta ári.
Næst þar á eftir komu starfsflokkarnir byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð annars vegar og ferðaþjónusta og farþegaflutningar hins vegar þar sem 45% aðspurðra sögðust hafa orðið fyrir vinnumarkaðsbrotum í fyrra.
Samtals gerðu þau átta félög ASÍ sem tóku þátt í vinnu skýrslunnar 342 launakröfur á síðasta ári fyrir hönd félagsmanna sinna. Var heildarupphæð krafna samtals 250 milljónir, en miðgildi kröfuupphæðinnar nam um 366 þúsund krónum. Þá voru einnig gerðar 84 kröfur vegna gjaldþrota sem námu samtals 156 milljónum.
Mun líklegra að gera þurfi launakröfur fyrir erlenda starfsmenn
Sem fyrr segir var rúmlega helmingur krafnanna, eða 58%, fyrir hönd félagsmanna af erlendum uppruna. Nam hlutfall krafna þeirra um 56% af heildarupphæð krafnanna. Hlutfall launafólks af erlendum uppruna er þó aðeins um 20% og því ljóst að launafólk af erlendum uppruna er mun líklegra en innfæddir að þurfa að gera kröfu á launagreiðanda vegna meintra vinnumarkaðsbrota.
Rétt er að taka fram að í tölum um launakröfur er ekki átt við ábendingar sem stéttarfélög senda fyrir hönd félagsmanna til fyrirtækja, heldur þegar slíkum ábendingum er ekki tekið og stéttarfélagið sendir formlega kröfu og rukkun á atvinnurekandann.
Skýrslan byggir annars vegar á gögnum frá aðildarfélögum ASÍ um launakröfur, en upplýsingar bárust frá átta félögum sem er með um 65% af félagsfólki ASÍ og dreifðist um allt land. Hins vegar byggir hún á könnun og sérgreiningu frá Vörðu – rannsóknarstofu vinnumarkaðarins.