Norðurtorg ehf. færði virði samnefnds verslunarkjarna á Akureyri upp um 1.250 milljónir króna í fyrra.
Fasteignafélagið Norðurtorg ehf., sem hefur staðið að uppbyggingu á samnefndum verslunarkjarna á Akureyri, hagnaðist um 934 milljónir króna á síðasta ári. Afkomuna má einkum rekja til 1.250 milljóna króna gangvirðishækkunar á verslunarkjarnanum sem var opnaður sumarið 2021. Matið byggir á núvirtu framtíðar sjóðsflæði eignarinnar.
Norðurtorg bókfærði fasteignina að Austursíðu 2 á nærri 3,5 milljarða króna í lok síðasta árs en til samanburðar var bókfært verð fasteignarinnar um 1,9 milljarðar í árslok 2021. Kostnaðarverð fasteignarinnar, sem inniheldur upphaflegt kaupverð, nam 2,2 milljörðum króna í árslok 2022 og jókst um 320 milljónir frá fyrra ári.
Norðurtorg náði samkomulagi árið 2019 um kaup á fasteigninni að Austursíðu 2, gamla Sjafnarhúsinu, af Reitum fasteignafélagi fyrir 600 milljónir króna sem greitt var með reiðufé. Félagið hefur síðan unnið að því að breyta húsnæðinu í verslunarkjarna sem er í dag um 11 þúsund fermetrar.
Meðal verslana sem hafa opnað á Norðurtorgi eru Bónus, Sports Direct, Sérefni og Rúmfatalagerinn auk þess sem ÁTVR hyggst opna Vínbúð í verslunarkjarnanum næsta vor.
Norðurtorg er í eigu fasteignafélagsins Klettás sem er í 65% eigu Péturs Bjarnasonar og 35% eigu Auðuns S. Guðmundssonar. Meðal annarra helstu fasteigna félagsins er Dalvegur 10-14, þar sem höfuðstöðvar Festi eru til húsa, en sú eign er bókfærð á tæplega 3 milljarða króna.
Heimild: Vb.is