Home Fréttir Í fréttum Viðauki upp á 150 milljónir til að mæta ófyrirséðum kostnaði

Viðauki upp á 150 milljónir til að mæta ófyrirséðum kostnaði

203
0
Mynd: Vikubladid.is

Stór og kostnaðarsöm viðhaldsverkefni hafa komið upp hjá Akureyrarbæ á árinu. Verkefnin hafa verið í gangi í sumar og af þeim hlotist mikill kostnaður. Umhverfis- og mannvirkjaráð óskaði eftir viðauka upp á 150 milljónir króna fyrir liðinn viðhald fasteigna og hefur bæjarráð samþykkt þá upphæð með fjórum greiddum atkvæðum.

<>

Áætlaðar voru tæplega 705 milljónir króna í viðhald á þessu ár og skiptist upphæðin í þrjá flokka, fastan kostnaður sem var 200 milljónir, ófyrirséð viðhald, 100 milljónir króna og fyrirséð viðhald upp á tæplega 405 milljónir króna.

Talsverður fjöldi verkefna í flokknum ófyrirséð viðhald hafa óvænt komið upp og því ekki gert ráð fyrir þeim í kostnaðaráætlun. Að auki bætist við kostnaður sem hlaust vegna leikskóladeilda sem settar voru upp í tveimur grunnskólum, Oddeyrarskóla og Síðuskóla.

Leki og skemmdir á lögnum

Meðal verkefna sem óvænt komu upp eru skemmdir á útveggjum íþróttahúss Giljaskóla sem kostuðu um 30 milljónir króna. Þá kom upp leki í kjallara á Davíðshúsi og urðu þó nokkrar skemmdir á gólfum og veggjum vegna leka frá strompi. Kostnaður við framkvæmdir þar er komin í 6 milljónir króna.

Þá hefur talsverður kostnaður orðið vegna leka á þaki á Rósenborg sem olli miklum skemmdum. Kostnaður er komin í 35 milljónir en einnig var farið í framkvæmdir í sumar vegna leka sem barst inn í húsið frá austurhlið þess og námu þær 22 milljónum króna.

Við endurnýjun lóðar Síðuskóla  kom í ljós að frárennslislagnir voru ónýtar og var farið í endurbætur á þeim. Kostnaður er komin í 27 milljónir króna. Frárennslislagnir á hluta fyrstu hæðar í Brekkuskóla voru sömuleiðis farnar í sumar og er áætlaður kostnaður vegna þeirra um 12 milljónir króna.

Þá voru gerðar umtalsverðar breytingar á Síðuskóla og Oddeyrarskóla til að koma þar fyrir leikskóladeildum og hefur komið í ljóst í báðum tilvikum að hluti af kostnaði við breytingar átti að rúmast innan viðhaldsáætlunar fyrir þetta ár en mun ekki gera það.

Mikilvægt að óska eftir heimild fyrir fram ekki eftir á

Hilda Jana Gísladóttir S-lista greiddi atkvæði gegn ákvörðun bæjarráðs. Hún ásamt Sunnu Hlín Jóhannesdóttur B-lista og Jönu Salóme Ingibjargar Jósepsdóttur V-lista lögðu fram bókun á fundi bæjarráð þar sem málið var til umfjöllunar.

„Miðað við verklagsreglur vegna viðauka er ekki eðlilegt að óska eftir viðauka í öllum þessum liðum, enda segir í verklagsreglum að viðauka við fjárhagsáætlun skuli ekki gera til að leiðrétta í fjárhagsáætlun, útgjöld í rekstri eða fjárfestingar sem þegar hefur verið stofnað til. Í þessu tilfelli er þó um mikilvægar framkvæmdir að ræða, sem við hefðum samþykkt, en leggjum áherslu á að mikilvægt er að óska eftir heimildinni fyrir fram, ekki eftir á,“ segir í bókun þeirra.

Heimild: Vikubladid.is