Framkvæmdir sem hafnar eru í Landmannalaugum eru fyrsti áfangi í heildar endurbótum á Landmannalaugasvæðinu, byggja á verðlaunatillögu VA arkitekta og Landmótunar frá 2014 og munu að endingu falla einstaklega vel að umhverfinu.
Tilefnið er gagnrýni Karenar Kjartansdóttur, almannatengils, á tvo skúra sem reistir hafa verið í Landmannalaugum. Karen taldi að um væri að ræða nýja búningsklefa og sagði þá skyggja á útsýni til fjalla. Sér kæmi á óvart hve klaufalega væri staðið að framkvæmdunum.
„Það er ótrúlega eðlilegt að fyrstu viðbrögð fólks séu neikvæð þegar einhverju er breytt sem því er annt um og maður skilur það alveg,“ segir Magdalena Sigurðardóttir, arkitekt hjá VA Arkitektar. Hins vegar verði að vanda til verka í umfjöllun um arkitektúr, of algengt sé að hún sé á neikvæðum nótum og ekki byggður á staðreyndum.
Magdalena tekur fram að húsin sem Karen hafi gagnrýnt séu þannig ekki búningsklefar heldur yfirbyggðir snagar fyrir handklæði og persónulega muni. Þeir komi í stað gamla pallsins sem hafi verið illa farinn og gjarnan fullur af drasli.
Ekki verði skyggt á laugarsvæðið
„Þetta er bara fyrsti áfangi framkvæmda. Þarna verður byggð ný aðstaða hinumegin við Námskvísl og það stendur til að minnka þau mannvirki sem eru á svæðinu og kofabyggðina við gamla skálann og í raun færa náttúruna þar aftur í upprunalegt horf, þannig bílastæði, búningsaðstaða og nestisaðstaða sé hinumegin við Námskvísl en ekki inn á sjálfu svæðinu.“
Þannig verði búningsklefar hinumegin við kvíslina, einmitt svo þeir skyggi ekki á laugarsvæðið. Magdalena segir nýja pallinn staðsettan á sama stað og þann gamla, en vera dreginn aðeins til baka til að stuðla að betra útsýni.
„Pallarnir og skýlin eru úr lerki, sem tekur nokkra mánuði að veðrast og grána og munu það þá falla einstaklega vel að umhverfinu,“ segir Magdalena. Mikil vinna hafi farið í tillöguna, vandað hafi verið til verka og samráð haft við Umhverfisstofnun, Landvernd og Ferðafélag Íslands.
Hægt er að kynna sér vinningstillögur VA arkitekta og Landmótunar hér:
Heimild: Visir.is