Eigendur Skógarbaðanna í Eyjafirði, hjónin Finnur Aðalbjörnsson og Sigríður María Hammer, eru með stórhuga áform um að byggja upp glæsilegt hótel sem ætlunin er að reka í nágrenni Skógarbaðanna sem opnuð voru fyrir um ári.
Áætluð fjárfesting er um fimm milljarðar króna en þessa dagana er unnið að því að afla nauðsynlegra leyfa fyrir framkvæmdinni og að tryggja fjármögnun til að áformin geti orðið að veruleika.
Nýr veitingastaður
Nýja hótelið mun verða reist um 90 metrum sunnan við Skógarböðin en þar verða 120 herbergi á fjórum hæðum með stórum veitingastað auk þakhæðar þar sem gestir geta notið útsýnis yfir Eyjafjörðinn og Akureyri. Á efstu hæðinni verður einnig að finna ráðstefnusal og útsýnisbar.
„Allt hótelið tekur mið af útsýninu og staðsetningunni, að vera inni í skógi og tengjast Skógarböðunum.“ Það mun hótelið sannarlega gera en þar verður að finna heilsurækt þar sem hægt verður að synda út í Skógarböðin og Sigríður segir ekki útilokað að það verði opinn bar á leiðinni með tilheyrandi útskotum fyrir fólk til að kasta mæðinni.
„Þetta verður spa-hótel með gufuböðum og heitum pottum,“ segir Sigríður. Skógarböðin munu stækka frá því sem nú er þrátt fyrir skamman rekstrartíma og nýjar laugar baðanna munu teygja sig í áttina að hinu nýja hóteli sem stefnt er að því að reisa.
Sigrún segir að heimamarkaðurinn á Eyjafjarðarsvæðinu, þar sem búa um 25 þúsund manns, sé sterkur en almennt höfða Skógarböðin til ferðamanna sem eiga leið um svæðið.
Hún segir að mikilvægt sé að tryggja millilandaflug um Akureyrarflugvöll en hún segir að framboð á gistingu á Akureyri hafi verið takmarkað enda hafi ekki nýtt stórt hótel verið byggt þar í fimmtán ár á meðan þrjú ný hótel hafi til að mynda verið reist í Mývatnssveit. „Það verður líka geggjað útisvæði í Varðgjánni fyrir aftan hótelið þar sem við ætlum að hafa opinn arindeld,” segir hún.
Ekki tjaldað til einnar nætur
Ekki verður annað sagt en að mikill metnaður sé lagður í verkefnið. „Það sem kveikti í okkur hjónum var bæði það hversu fallegt umhverfið er þarna og að það vantar hótel á Akureyri. Það var búið að gefa það út að EasyJet ætlaði að hefja hingað áætlunarflug í sumar en svo kom tilkynning um að þeir væru hættir við það vegna þess að innviðirnir voru ekki til staðar. Fluggestir fengu ekki gistingu hérna yfir sumartímann sem er mjög dapurt.“
Þegar veturinn færist yfir eru lykilviðskiptavinir Skógarbaðanna íslenskir ferðamenn sem sækja Hlíðarfjall heim til að skíða fyrir utan öll íþróttamótin sem eru haldin á Akureyri á hverju ári. Á fyrsta árinu sem böðin hafa verið opin hafa um hundrað og tíu þúsund gestir sótt þau heim sem er meira en helmingi meira en upphafleg viðskiptaáætlun hjónanna gerði ráð fyrir. „Það fór fram úr vonum.“
Sigrún segir að ekki liggi fyrir hver verði rekstraraðili hins nýja hótels Skógarbaðanna og viðurkennir að hún og Finnur séu ekki sérfræðingar í rekstri hótela en þau kunna svo sannarlega að láta verkin tala.
„Við vitum að það eru aðrir sem kunna það betur en við.“ Stefnt er að því að fyrstu gestirnir muni geta innritað sig á Skógarbaðahótelið undir lok árs 2025 ef framkvæmdir ganga samkvæmt áætlun, í síðasta lagi á fyrstu mánuðum ársins 2026, en hótelið verður kærkomin viðbót við framboð á fjölbreyttri ferðaþjónustu sem er nú þegar til staðar á Eyjafjarðarsvæðinu.
Heimild: Mbl.is