Stefnt er að því að hefja deiliskipulagsvinnu í sumar við uppbyggingu hótels í húsnæði gömlu síldarverksmiðjunnar á hafnarsvæðinu á Skagaströnd. Stefnt er að því að sjóböð verði einnig opnuð þar á næstunni.
Samstarfsyfirlýsing hefur verið undirrituð milli Skagastrandar og Fasteignafélagsins Þingeyri um undirbúning að uppbyggingu á hóteli í bænum. Verður hótelið staðsett í húsnæði gömlu síldarverksmiðjunnar þar og hefur fengið vinnuheitið Herring Hotel, eða Síldarhótelið.
Verkefnið hefur verið í vinnslu í marga mánuði og hafa teikningar af hótelinu þegar verið kynntar. Yrði hótelið hluti af mikilli uppbyggingu í bænum en fyrirhuguð eru sjóböð á Hólanesi og á hótelið að svara aukinni þörf fyrir gistirými á svæðinu.
„Saman geta hótel og baðlaugar stutt við jákvæða byggðaþróun og skapað grundvöll fyrir aðra uppbyggingu í ferðaþjónustu, svo sem vetrarferðamennsku, siglingar og sjóstangaveiði,“ segir í kynningu verkefnisins.
Síldarverksmiðjan í bænum hefur verið ónotuð um tíma en hún var í eigu ríkisins þar til nýverið þegar sveitarfélagið eignaðist hana. Gert er ráð fyrir að Herring Hotel verði 4-5 stjörnu hótel með um 60 gistirýmum og fínum veitingastað með útsýni yfir hafið. Einnig verði fjölnotasalur fyrir veislur og viðburði og fundarherbergi. Bæði verða herbergi og íbúðir á hótelinu, sem býður upp á sveigjanlega og fjölbreytta notkun.
ESJA Architecture unnu frumdrög að hugmynd fyrir hótelið en samkvæmd þeim drögum verður verksmiðjan tekin í gegn og ásýnd hennar að utan færð að miklu leyti til fyrra horfs. Innanhúss skapist hrá og heillandi stemning þar sem verksmiðjueinkenni hússins mæta nútímalegri og hlýlegri hönnun.
Vonast er eftir því að útfærsla og frumhönnun hótelsins liggi alveg fyrir þann 1. júní næstkomandi. Eftir það er hægt að hefja vinnu við deiliskipulag.
Sjóböðin hafa einnig verið lengi á teikniborðinu og voru fyrst kynnt í mars árið 2021. Stefnt er að því að þau verði staðsett við fjöruborðið með útsýni yfir flóann og fjöllin.
Heimild: Visir.is