Listaverkið Eggin í Gleðivík verður að öllum líkindum ekki flutt þvert á yfirlýsingar um annað í kjölfar banaslyss í júní á síðasta ári.
Karlmaðurinn sem lést lenti fyrir lyftara á hafnarsvæði í Gleðivík en mikil umferð ferðamanna er um svæðið vegna verksins sem er sagt hafa mikið aðdráttarafl. Austurfrétt greinir frá.
Miklar framkvæmdir voru á hafnarsvæðinu þegar slysið átti sér stað. Var stýring gangandi umferðar ekki til staðar og merkingum sömuleiðis ábótavant, þar sem talið var að þær myndu þrengja svæðið og jafnvel skapa enn meiri hættu.
Í yfirlýsingu sveitarfélagsins nokkrum dögum eftir slysið kom fram að flytja ætti verkið frá hafnarsvæðinu á annan stað við sjávarsíðuna á Djúpavogi. Það virðist þó ekki hafa ræst úr því.
Sérstaklega gætt að merkingum
Á fundi í byrjun desember lagði heimastjórn Djúpavogs fram tillögu sem kvað m.a. á um að listaverkið fengi að standa þar áfram, og var hún samþykkt samhljóða.
Í tillögunni kemur fram að áhersla verði lögð á að við skipulagsvinnu og framkvæmdir verði sérstaklega gætt að merkingum, umferðaröryggi og aðgengi.
„Heimastjórn ítrekar að umferðaröryggi gangandi vegfarenda á svæðinu verði tryggt eins og kostur er fyrir næsta sumar,“ segir jafnframt í tillögunni.
Heimild: Mbl.is