Fyrir rúmum þremur árum var blásið til hönnunarsamkeppni um brú yfir Fossvog sem á að vera hluti af Borgarlínunni.
Sautján innlendar og erlendar hönnunar-og arkitektastofur sendu inn tillögu. Af þeim voru sex valdar til að taka þátt í hönnunarkeppninni.
Fimm þeirra sem ekki hlutu náð fyrir augum dómnefndar töldu á sér brotið og kærðu niðurstöðuna til kærunefndar útboðsmála. Hún komst að þeirri niðurstöðu að lög um opinber innkaup hefðu verið brotin þar sem forvalsgögn hefðu verið of matskennd og almenn.
Verkfræðiskrifstofan Efla varð síðan hlutskörpust með brú sem nefnist Aldan þegar keppnin var endurtekin.
Við þá niðurstöðu sætti arkitektastofan Úti og inni sig ekki við og kærði hana til kærunefndar útboðsmála.
Arkitektastofan sagði í kæru sinni að skipun dómnefndar og hæfisnefndar hefði verið ábótavant. Hún hefði borið það með sér að koma ætti verkefninu í hendur á Eflu.
Dóm-og hæfisnefnd hefði verið vanhæf vegna náins samstarfs og tengsla Vegagerðarinnar við Eflu. Minnst þrír sem hefðu verið tilgreindir í samkepnislýsingu væru fyrrverandi starfsmenn Eflu eða nánir undirmenn hlutaðeigandi hagsmunaaðila.
Arkitektastofan taldi sömuleiðis að öll yfir-og framkvæmdastjórn Vegagerðarinnar væri vanhæf í öllum málum þar sem Efla væri aðili að máli.
Allir þrír sérfræðingar í stjórnum Vegagerðarinnar væru fyrrverandi yfirmenn, stjórnendur og eigendur hjá Eflu. Verkfræðistofan nyti sérstakra forréttinda í rekstri Vegagerðarinnar þegar kæmi að innkaupum á hönnun og ráðgjöf sem almennt væru ekki boðin út.
Arkitektastofan sakaði Vegagerðina einnig um hugverka-og hugmyndastuld í nýju hönnunarsamkeppninni um Fossvogsbrú. Flestar bitastæðu hugmyndirnar úr tillögum stofunnar í fyrstu umferð hefðu verið afritaðar í nýrri samkeppnislýsingu sem allir þátttakendur hefðu fengið aðgang að.
Jafnframt voru gerðar athugasemdir við að Vegagerðin hefði ekki enn greitt skaðabætur vegna fyrri hönnunarsamkeppninnar og að almenn óánægja væri með hvernig staðið hefði verið að hönnunarsamkeppninni.
Skemmst er frá því að segja að Vegagerðin, Reykjavíkurborg, Kópavogsbær, Ríkiskaup og Efla höfnuðu þessum ásökunum.
Kærunefndin vísaði í úrskurði sínum til dóms Hæstaréttar þar sem kom fram að hagsmunatengsl þátttakenda og dómnefndarmanns þyrftu að vera umtalsverð og sérstök til að slíkt gæti valdið vanhæfi. Var því ekki talið að arkitektastofan hefði fært nægjanleg rök fyrir því að vanhæfisástæður gætu átt við nokkurn dómnefndarmann.
Þá taldi kærunefndin að arkitektastofan hefði ekki sýnt fram á það með neinum haldbærum hætti að brotið hefði verið gegn lögum um opinber innkaup. Var kæru arkitektastofunnar því vísað frá og skaðabótakröfu hennar hafnað.
Heimild: Ruv.is