Fyrirhugaðar endurbætur á Myllubakkaskóla í Reykjanesbæ munu kosta sveitarfélagið um fjóra milljarða króna. Þetta staðfestir Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar í samtali við Morgunblaðið, en þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag, mánudag.
Eins og áður hefur verið greint frá hefur greinst töluverð mygla í Myllubakkaskóla á síðustu árum og þurfti fjöldi starfsmanna skólans að fara í veikindaleyfi vegna þess. Áður hafa lagfæringar farið fram á skólanum, sem orðinn er 70 ára, en þær hafa ekki skilað árangri.
Ætti ekki að kosta meira að byggja frá grunni
Margrét A. Sanders bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins lagði fram bókun á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar 4. ágúst þar sem hún fór fram á að farið yrði vel yfir þær leiðir sem stæðu til boða við endurgerð skólans áður en það yrði lagst í svo kostnaðarsamar framkvæmdir.
„Eftir fjögurra milljarða endurbætur sitjum við kannski uppi með að hluta til gamalt og úrelt húsnæði,“ segir Margrét í samtali við Morgunblaðið. Að hennar mati ætti ekki að kosta mikið meira að reisa nýtt skólahúsnæði frá grunni.
„Við erum að gagnrýna að það sé ekki kannað í þaula hvað þetta kostar miðað við þá teikningu sem þeir eru að vinna með. Ætlum við kannski eftir smá tíma að lenda í því að þurfa að fara í aðrar endurbætur á þeim gamla hluta sem situr eftir?“
Hún segir mikilvægt að fá sérstakt kostnaðarmat á því hvað það kosti að byggja nýjan skóla áður en farið sé í kostnaðarsamar endurbætur á gamalli byggingu.
Heimild: Mbl.is